fimmtudagur, október 30, 2003

Eitt af þeim fjölmörgu tímaritum sem eru á markaðnum í dag heitir "Stíll". Það væri svo sem ekki frásögur færandi nema að í nýjasta heftinu er heljarinnar viðtal við MogP undir fyrirsögninni "skotin í Skotanum". Frekar væmið viðtal en samt mun skárra en uppkastið sem þau fengu í hendur sem þau áttu reyndar ekki orð yfir.
Haustferð hjá Vélinni á morgun og lauk skráningu á 5 min. Skráning í vísindaferðina hjá Nöglunum stendur hins vegar ennþá yfir. Hugsanlega e-r ennþá að jafna sig eftir kennarafagnaðinn. Ennþá að melta það hvort ég skelli mér í vísó eða taki því bara rólega og mæti jafnvel í Efnafræði á laugard. Vá hvað það er langt síðan ég mætti. Boðið í afmæli til Rakelar á laugardaginn sem er mjög gott.
Nú er komið á daginn að leiðbeinandi hópsins míns í Rekstrarfræðiverkefninu er enginn annar en Arnþór Jón Þorvarðarson a.k.a. hnakki, a.k.a. steiktihrútur => slakihrútur. Hann þekkir rekstrarfræðina eins og handarbakið á sér og nýjustu fréttir herma að hann geti ekki beðið eftir að leiða okkur í allan sannleikann eða "what you always wanted to know about rekstrarfræði but the teachers refused to tell you", eins og hann segir sjálfur.
Fór á fund með framkvæmdarstjóra Víkings í hádeginu í dag og svo stjórnarfundur hjá TSÍ í kvöld þar sem skrifaðar verða gommur af umsóknum. Djöfull er maður mikilvægur.
"Ó mamma, ertu vakandi mamma mín"

þriðjudagur, október 28, 2003

Horfði á einn allra leiðinlegasta fyrri hálfleik lífs míns í kvöld, Leeds-Man U. Hvað eru menn eins og Kieron Richardson og David Bellion að spá? Þeir fá sénsinn og skíta algjörlega á sig. Boltinn tapaðist alltaf þegar þeir fengu boltann í lappirnar og þeir sáu eiginlega alfarið um að brjóta niður sóknarlotur samherja sinna. Það hefði heldur ekki átt að vanta metnaðinn. Leikur gegn Leeds á Elland Road en ekki Rotherham eða álíka liði á heimavelli. Nú er Scholes meiddur í mánuð þ.a. þetta lítur alls ekki vel út.
Nú er kominn sá tímapunktur í vikunni þegar maður er milli þess að ætla að taka því rólega um næstu helgi og að skella sér í vísindaferð. Tók þá ákvörðun að slaka á þessa helgi á laugardaginn en sei sei, nú langar mann ósköp mikið á djammið aftur. Agaleysið er algjört.
Af hverju vill fólk eiga ketti ? Ég á erfitt með að ímynda mér að köttur geti verið vinur manns eins og ég held að hundur geti verið. Svo eru þeir alltaf með læti fyrir utan húsið manns þegar aðrir kettir nálgast og upphefjast slagsmál með tilheyrandi kvæsi. Þeir eyða heilu dögunum í að sitja um fugla í runnunum og ekki drepa þeir sér til matar. Nei, þeir eru hreinlega morðóðir og kæra sig kollótta um félaga sína í dýraríkinu.
Svo er það auðvitað að hleypa kettinum út, kalla á hann inn, hreinsa kattarhárin og ef ekki sem sumir gera þá senda gestina sína útataða í kattarhárum heim á leið. Það er pottþétt að þegar ég finn hina fullkomnu konu sem hefur gríðarlegan áhuga á fótbolta, Simpsons og er auk þess geðveikt flott þá á hún eftir að hafa ástríðu fyrir köttum. En þá skrifaði ég þetta aldrei og hef ávallt verið mikil kattavinur.
"Það varst þú, það var ég, við saman"

Mér finnst ég ekki lesa um annað en gaur sem verið er að dæma fyrir kynferðlislega misnotkun á ungum drengjum og stúlkum. Skelfilegt að hugsa til þess að svo mikið af ónýtu liði sé í þjóðfélaginu. Góðu fréttirnar eru samt kannski þær að nú fyrst er verið að taka af alvöru á þessum brotum.
Dundee í Skotlandi er á höttunum eftir Edgar Davids hjá Juve. Hvernig í ósköpunum ættu þeir að hafa efni á honum? Og þeir eiga að hafa boðið honum samning nú þegar. Þetta er svo mikil steypa.
Fame æfing í kvöld. 4 sinnum bolti á 5 dögum. Djöfull er maður flottur.
"Finnst mér það eiginlega, samt er það svo fjarri lagi"

sunnudagur, október 26, 2003

Hvað er Paul Burell, brytinn hennar Díönu, mikill hálviti. Þau hafa greinilega verið algjörir trúnaðarvinir þar sem þau stunduðu bréfaskriftir en nú þegar hann vantar pening þá skiptir það hann engu máli. Þvílíkur vinur!
Ætli ég geti ekki fullyrt að "Gemsar" sé slakasta íslenska kvikmynd sem ég hef séð fyrr og síðar. Við Atli tókum hana sem fríspólu og ég horfði á hana í dag. Skelfileg. "Auto Focus" var hins vegar alveg ágæt. Horfði líka á "The Matrix" í gær. Eins og sumir vita þá hafði ég ekkert rosalega gaman af henni á sínum tíma og olli það hneykslun margra. Eftir að hafa séð hana aftur er hún skárri en come on, Keano Reeves er ömurlegur náungi. Röddin hans fer svo í mig, nema þegar Pablo Fransesco tekur hana, þá er hún fín!
Fór á Stjarnan-Haukar í dag sem Tumi Duranona. Skemmst frá því að segja að Stjarnan tók Haukana með þremur mörkum og átti Nielsen fínan leik og setti 3 mörk. Haukarnir voru samt á hálfum hraða og ætla greinilega að spara sig í þessum leik og þeim næsta á móti ÍBV fyrir leikinn gegn Skopje í Meistaradeildinni.
"Og heitasta óskin er sú, að Kalli komi kagganum í lag, strax í dag"!

laugardagur, október 25, 2003

Drullugaman á kennarafagnaðinum í gær. Góð mæting, frábær matur og kennarar í ruglinu. Verður ekki betra. Fórum svo niðrí bæ þar sem ég sá mesta hnakka lífs míns á Sólon. Hann var örugglega ári eða tveimur yngri en ég, klæddur í svona hvítar glans íþróttabuxur og hvítan hlýrabol og var að dansa við stelpu sem hlýtur að hafa verið kærastan hans. Gaurinn var sífellt að lyfta upp bolnum til að strjúka á sér magahárin og svo var hann alltaf að flengja (e.spank) kærustuna sína. Ég trúði ekki mínum eigin augum. Við Kenneth fórum svo á Celtic þar sem var drukkið og sungið fram á nótt.
Merkilega hress í dag miðað við stemmningu gærdagsins. Prófaði að þamba vatn þegar ég kom heim og virðist það hafa skilað sér. Mætti að vísu ekki í efnafræði en eins og Skrímslið segir "hey, what the fuck"!
United 1-3 Fulham. Ekki annað hægt en að hlæja að þessu.
Fórum nokkrir í fótbolta út á gervigras KR í hádeginu í gær. Búnir að spila í 10 min kemur e-r gaur og ætlar að rukka okkur um 3000 kr fyrir að spila á vellinum. What is this world coming too? Þegar ég verð ríkur verkfræðingur ætla ég að byggja minn eigin fótboltavöll og ég ætla sko ekki að leyfa þessum gaur að spila þar.
8 ára gamalt rán upplýst í gær, Skeljungs ránið við Íslandsbanka á móti MR. Þetta var tekið fyrir í Sönn íslensk sakamál. Ótrúlegt að það upplýsist 8 árum síðar. Einn þeirra er dauður. Af hverju dettur mig í hug að þetta tengist á e-n hátt eiturlyfjum?
Og eitt en. Hefur e-r tekið eftir því þegar maður fer í sturtu eftir að hafa verið á djamminu finnur maður mestu reykingarlykt í geimi? Hreint og beint ógeðslegt.

fimmtudagur, október 23, 2003

Tókst að draga Malone út úr læknisfræðiskápnum í tvo tíma áðan þegar við skelltum okkur á sinfóníutónleika. Mozart píanókonsert og Prokoffiev sinfóní. Skemmtilegir tónleikar. Hittum líka Gylfa stærðfræðikennara og Davíð Þorsteinsson sem þekkti ekki Martin. Stakk upp á því við Martin að við skelltum okkur á Fyndnasta mann Íslands á Felix enn nei nei. Þá var kauði búinn að lofa sér í The Bachelor. Það er sem sagt e-ð moment að horfa á Bachelor í hverri viku með "Bachelor klúbbnum" eins og ég kýs að kalla hann. Martin fullvissaði mig um að fólk safnaðist saman úti um allan bæ til að horfa á þættina og nefndi sem dæmi að Y-strákarnir með Midfield í fararbroddi misstu ekki úr þátt. E-ð á ég erfitt með að sjá fyrir mér Óttar, Sigurjón, Gunna B og Fjalarr fyrir framan sjónvarpið með kveikt á kertum, haldandi í hendur hvors annars að missa sig af spenningi yfir því hver fær rós. Hugsanlega er ég geðveikt sár af því að ég næ ekki Skjá einum en það litla sem ég hef séð af þessum þáttum er ekki að heilla mig. Svo hef ég líka heyrt að fólk sé að missa sig af því að Bachelorinn sjálfur gistir þessar næturnar á Nordica hotel!
Það fór því svo að ég tók enn eitt fimmtudags "Sex and the city-double" kvöldið.
Hvað hefði verið besta valið ?
1. Fyndnasti maður Íslands.
2. Sex and the City-tvöfaldur
3. The Bachelor

miðvikudagur, október 22, 2003

United sigraði the battle of Britain í kvöld með minnsta mun þökk sé King Phil. "Skotarnir" stóðu sig nokkuð vel miðað við það sem ég reiknaði með en Howard stöðvaði þá. Rio Ferdinand var hins vegar í ruglinu og kannski ágætt að senda hann í smá frí en mér skilst að niðurstöðu FA sé að vænta á morgun.
Bjargvætturinn Gústi Púst er kominn í KR og er það miður. Heyrst hefur nýtt viðurnefni frá einum ónefndum á snillingnum en það er hvorki meira né minna en Júdas! Menn ættu samt fyrst og fremst að taka ofan fyrir kappanum fyrir að hafa nennt að vera yfirburðamaður í þessu liði og koma því endurtekið til bjargar þegar mest lá við. Einnig hefur heyrst að Buffið falist eftir 7unni góðu og gaman að sjá hvað kemur út úr því.
Hvaða kennarafagnaður spyr Miðjan? Jú, fínn matur og vín í faðmi skorafélaga og kennara, þ.e. fyllerí þar sem nemendur fara heim með kennurum. Lítið um kvenkyns kennara held ég í deildinni þ.a. kannski til lítils að láta sjá sig. Það verður hins vegar eflaust barist með kjafti og klóm um þá félaga Birgi Jónsson og Júlíus Sólnes.
Hefur e-r séð nýju Coen myndina, Intolorable Cruilty ? Hef ekki heyrt neitt um þá mynd og trailerinn er ekki að heilla mig. Virkar á mig sem stelpumynd hvernig sem fólk vill túlka þá skilgreiningu.

þriðjudagur, október 21, 2003

Kominn í ham. Við Dolli tókum stærðfræðisession frá 8:15 - 18:00 í gær og í dag var mössuninni framhaldið frá 8:15-20. Bætir upp fyrir þynnkuna á laugardag og já bara fyrir frekar rólegan tíma hingað til lærdómslega séð.
Fór í verklegan tíma í Rannsóknarstofu Byggingaiðnaðarins og í fyrsta skipti í verkfræðinni hafði ég virkilega gaman af því sem ég var að gera. Ætli maður sé ekki hreinlega á ágætum stað í verkfræðinni eftir allt saman. Þetta 2.ár er allavegna töluvert skemmtilegra en það fyrsta. Kennarafagnaður á föstudaginn og stefnir allt í mætingu þótt 2.árs nemar hafi ekki verið duglegir að skrá sig. Fólk enn að jafna sig eftir föstudaginn.
Atli er með könnun í gangi um það hver eigi að taka við sem formaður Tennisdeildarinnar. Hann er að slátra könnuninni og ef þetta hvetur kappann ekki til dáða þá veit ég ekki hvað.
Rangers-United á morgun þar sem Ferguson kemur á Ibrox þar sem honum tókst aldrei að meika það.
Bæti við linkum á Gunna og bestu íþróttasíðu landsins.
Að lokum vil ég mæla með tvennu: Súkkulaðibitakaka úr Höftinum og Lindubuff. Gods gifts!!

sunnudagur, október 19, 2003

Það er bara einn Danni Hjalta !!! Frábærar fréttir úr Fossvoginum því Danni Hjalta, sem er Eiður Smári okkar Víkinga, hefur samið til 3ja ára við Víkinga. KR var á eftir Danna en sem betur fer sá hann ljósið og verður um kyrrt. Samstarfsmenn mínir frá því í sumar Haukur Úlfars og Einar Odds hafa líka endurnýjað samninga.
Þórólfur rifjaði upp moment frá því á föstudaginn. Var á Celtic að tala við hann í símann þegar ég hallaði mér upp að því sem ég hélt að væri veggur en féll þess í stað kylliflatur út í e-ð port bakvið Celtic. Þá var þetta e-r "fire escape" hurð með svona slá sem ég auðvitað lagðist á. Var búinn að steingleyma þessu. Djöfull var ég wasted.
Fékk "Best of Metallica" og "Best of Queen" píanóbækur lánaðar í dag. "Bohemian Rhapsody" er frekar flott og skemmtilegt að spila. Get ekki beðið eftir að spila "Nothing else matters".
Hver sker sig úr ? Carlo Cudiccini, Jerzy Dudek eða Gunnar "undir sig" Sigurðsson ?

laugardagur, október 18, 2003

Þvílík þynnka enda 99% af deginum hef ég varið í rúminu með kveikt á sjónvarpinu, rugluðu eða órugluðu. Fór einu sinni niður að ná mér í heitar vöflur. Mjög gaman í gær í partýinu og djammað með liðinu fram eftir. Hittumst í sal á Hjónagörðunum og fórum svo í íbúð einnar stelpunnar í skorinni. 7 búmm spilaður með það fyrir augum að slá e-ð legend MR met í leiknum sem er víst sextíu og e-ð. Náðum því ekki alveg. Fórum svo á skákmótið þar sem ég var sigraði Narfa í skák kvöldsins og hlaut að launum glæsilegan farandbikar, sjá hér. Ástæðan fyrir því að áhorfendurnir taka ekki eftir verðlaunaafhendingunni er ekki sú að um e-ð grín hafi verið að ræða heldur var Gunni að taka orminn á gólfinu í hinum enda salsins. Vorum svo í ruglinu á Celtic þar sem Malone mætti meðal annars og gerði allt vitlaust. Fórum líka á Sólon en þegar ég þekkti ekki svona 10unda lagið í röð nennti ég þessu ekki lengur. Arnþór ekki búinn að kenna mér Justin dansinn nógu vel.
Svaf yfir mig í morgun og þá er ég ekki að tala um efnafræði því ég missti af United leiknum. Góðir samt að vinna. Ég gæti rætt um Magdeburg-Hauka, Werder Bremen-Stuttgart, Arsenal-Chelsea og HK-Stepan en er að spá í að sleppa því.
Á leið í mat til Gróu og Þórunnar á eftir og svo er Arnþór búinn að boða æfingu í Justin dönsum. Later

föstudagur, október 17, 2003

Þvílík snilld. Við Atli skelltum okkur á Kill Bill og var ég með þvílíkar væntingar til myndarinnar. Myndin stóðst algjörlega þær væntingar og ég sem venjulega hef ekkert gaman af slagsmálaatriðum stóð á öndinni. Blóðbaðið var svakalegt og ráðlegging til væntanlegra horfanda að sleppa sveittum borgara eða þess háttar fyrir mynd. Tarantino hlýtur að vera sjúkasti maður þessarar plánetu en snillingur engu að síður.
Logi Ólafsson spjallaði við fótboltaáhugamenn á Vökufundi í gær. Hann byrjaði ekki vel því hann mætti með opna buxnaklauf og hlógum við Atli okkur máttlausa fyrstu 5 min og þakka ég hreinlega fyrir að hann spurði okkur ekkki "er ekki í lagi hjá ykkur strákar?" eða e-ð þess háttar. Að lokum jöfnuðum við okkur og var fundurinn hinn ágætasti.
Kláraði Dís í gær og fannst hún fín. Finnst eiginlega allar bækur sem ég les fínar. Maður er alltaf þokkalega stoltur þegar maður klárar bók sem tilheyrir ekki skólanum. Reyndar algjör undantekning ef sú bók er ekki eftir A.I.
Mættur í skólann kl 08 eftir tæpan 5 tíma svefn og fatta að við áttum frí í fyrsta tíma. Hvernig fer ég að þessu. Búinn að eyða tímanum hér í tölvuverinu og horfa m.a. á Tortímandann, MR-VÍ myndina 2003. Fín mynd.
Partý í kvöld hjá umbygg. 2.árið hittist og gerir tilraun til að þjappa hópnum saman enda algjör þörf á því. Síðan skákmót sem byrjar 19, þegar partýið ætti að vera hálfnað þ.a. það verður að koma í ljós hvort ég mæti til leiks.

miðvikudagur, október 15, 2003

"Barcelona, what a beautiful dream" sungu tenórarnir þrír 1992. Sá draumur er hreinlega að rætast hjá Ásgeiri bróður hans Jónasar. Ég fór á Barcelona leikinn og var að hugsa hvað það væri gaman ef Ásgeir kæmist til Barcelona e-n tímann en grunaði ekki að það yrði eftir hálf annað ár. Reyndar er málið ekki alveg í höfn. Viggó klúðraði samt málunum í viðtali á stöð 2 áðan.
Arnar Björnsson:"Hvað er hann góður í dag?"
Viggó:"Ég er illa við að hæla leikmönnum svona en hann er betri en Ólafur Stefánsson þegar hann var á hans aldri".
Rólegur á pressunni sem hann settur á Ásgeir. Hann er auðvitað ótrúlega efnileur en það er stórt skref á milli þess að vera efnilegur og að verða besti handboltamaður í heimi. Maður þekkir nú nokkra sem hafa verið kjörnir bestu leikmenn Shellmóta og efnilegustu hitt og þetta en eru nú búnir að bæta á sig 10 kg á viku á Benidorm :) !!

Kolbrún Bergþórsdóttir er óþolandi. Ég kúgast í hvert skipti sem hún skrifar eða talar um fótbolta. Ein HM keppni sem hún ákveður að fylgjast með frá a-ö og allt í einu er hún e-r sérfræðingur. Það sem kemur út úr henni. Oh. Óþolandi kelling.

þriðjudagur, október 14, 2003

Skandall. Á leiðinni í fótbolta í gær kveikti ég á útvarpinu og þá var e-r spurningakeppni í gangi á Rás 2. Þetta var síðasta og úrslitaspurningin í keppninni og gæti ekki verið einfaldari."Nefnið þrjú leikstjóraverk Quintens Tarantino". Annað liðið var á undan á bjöllunna þ.a. ég ætlaði að keppninni væri lokið en nei nei. "Uhh Kill Bill og ...". Þeir höfðu ekki Guðmund um tvær myndir til viðbótar þ.a. hitt liðið sigraði. Algjör skandall. Tvær af bestu kvikmyndum sögunnar Pulp Fiction og Reservoir Dogs ættu að vera á allra vitorði. Þetta vitlausa lið var líka eingöngu skipað strákum. Jackie Brown og True Romance eru líka frekar þekktar. Nú langar mig að skella Reservoir Dogs í tækið en ætli ég glími ekki e-ð við heimadæmin í greiningu fyrst.
Mig langar þvílíkt á Intolarable Cruelty, nýju Coen myndina. Frumsýnd á fimmtudag held ég. Svo styttist í fyrri hluta Kill Bill. Later

sunnudagur, október 12, 2003

Af hverjur er lífið svona ósanngjarnt? Ísland sækir sækir og sækir og uppsker en nei. Rússneskur dómarinn stöðvar fagnaðarlæti 280000 Íslendinga. Dauð þögn næstu þrjátíu mínúturnar. Frábært effort hjá liðinu. Við vorum að spá í að fara nokkrir og kúka í garðinn hjá Atla Eðvalds um kvöldið en í staðinn var bara þunglyndi út kvöldið.
Við Tryggvi skelltum okkur á Hauka Barcelona í dag. Frábær handbolti þó Barcelona menn hafi þannig séð haft þetta í hendi sér allan tímann. Skiptu bara inn á nýju 6 manna liði á 15 min fresti þ.a. þeir þurftu aldrei að skipta í vörn eða sókn.
Mæting á Hlöðuna 8 í fyrramálið. Nú verður tekið á því. Later

laugardagur, október 11, 2003

Virkilega gaman hjá Heiðdísi í gær. Rölt heim undir 1:30 og ferskleikinn í fyrirrúmi í efnafræðinni í morgun. Við Hjalli,Bjöddninn,Malone og Svelgurinn ætlum að horfa á leikina hjá Hjallanum og verður gríðarleg stemmning ef ég þekki félagana rétt.
Jæja, styttist óðum í leik og spurning um að taka fegurðarblundinn.
Sigga og Grétar á Players annað kvöld. Við Fríða ætlum ef úrslit dagsins standast væntingar. En þú ?
LATER!

föstudagur, október 10, 2003

Í ljósi þess að Atli hefur dregið þátttöku sína í leiknum tilbaka og Daði er á Benidorm þá mun bjórinn verða drukkinn af engum öðrum en Tuma Duranona. Hvers vegna Duranona spyr e-r? Jú, á gestalista fyrir leik Stjörnunnar og ÍR í handboltanum á sunnudag verð ég nefndur Tumi Duranona. Verður gaman að sjá svipinn á miðafólkinu.
Golf áðan, gjörsamlega versti hringur ævi minnar nema þrjár síðustu holurnar þar sem pörin duttu þrjú í röð.
Þvílík spenna fyrir leikinn á morgun. Samt ofmat á krökkunum sem voru að spá í Ísland í Dag áðan. Nánast allir í "Ísland vinnur 2-1 og Eiður Smári skorar" pakkanum. Ísland tapar 4-0. Hins vegar treystum við á Litháen. ÁFRAM LITHÁEN!
Ætlaði að taka það rólega í kvöld en bjór með golfinu og bjór með matnum + endalaus þreyta hafa gert það að verkum að nú þegar finn ég á mér þ.a. ekki verður aftur snúið. Partý hjá Heiðdísi og svo verið að tala um Karaoke!!

fimmtudagur, október 09, 2003

"Ömurlegt, ömurlegt, ömurlegt, ömurlegt, ömurlegt, og ÚLPAN ÖÖÖÖÖÖÖ"
Jú Óttar þetta var árið sem FH náði ekki að vinna Fylki og ótrúlegt en satt var svar Svelgsins rétt en spurning um að veita honum aðeins 1/2 stig þar sem hann byggir svar sitt 90% á annars ágætu svari Buffsins. Svelgurinn kominn í forrystu með 2 1/2 stig en enn er nóg af stigum í pottinum þar sem tvær síðustu spurningarnar hafa meira vægi (e.momentum) en þær á undan eins og tekið var fram í upphafi!
Afmæli hjá Heiðdísi annað kvöld og staðfest að pósti verði dreift vestan við læk annað kvöld. Var að byrja á bókinni Dís í gær. Fyrst það er verið að gera bíómynd hlýtur hún að vera góð. Það er hún reyndar, a.m.k. fyrstu 50 bls.
Svakalegir endar í gæðaþáttum á RÚV þessa vikuna. Beðmál í borginni endaði á dramatískan hátt í kvöld sem er mjög óvenjulegt. Venjulega svona góður endir dæmi. Ég horfi á sjónvarp nánast á hverju kvöldi og er bara með eina stöð. Hvernig væri ég ef ég væri með stöð 2, Skjá 1, Skjá 2 eða Sýn? Shit ég gæti ekki verið með Sýn. Það er fótbolti í gangi, ALLTAF!
"Af hverju get ég ekki verið hamingjusamur, eins og Sigga og Grétar í Stjórninni ye ye". Jú, Sigga og Grétar verða einmitt á Players á laugardag og þangað verður farið ef Ísland kemst á EM. Já, ég var að spá í að láta lita hárið á mér blátt en það gengur nógu hægt að heilla kvenþjóðina með venjulegt hár.
Var að læra mínar fyrstu skipanir í HTML og æfði mig á heimasvæðinu mínu í HÍ. Glæsilegur afrakstur.
Hvet alla til að berjast við Atla hér í lokaspurningunum tveimur.
Q5: Hver var kjörinn besti leikmaður Shellmótsins árið 1991? (Vísbending: Hann er einn af fremstu knattspyrnumönnum þjóðarinnar í dag)

miðvikudagur, október 08, 2003

Svelgurinn er kominn í forrystu eins og reiknað var með. Fékk undirritaður reyndar sms frá kauða þar sem hann hneykslast á því hve auðveldar spurningarnar eru. Bið ég hann um að endurtaka þessa fullyrðingu að viku lokinni fyrir þær spurningar sem eftir eru.
Annars hefur Danmerkurfarinn Tómas Karl tekið forrystuna í viðleitnikeppninni. Er kappinn með 1 stig sem hann má þakka vinsamlegri ábendingu Miðjunnar.
Horfði á ER áðan og mér sýnist Carter vera eina persónan sem eftir er frá upphaflegu þáttunum. Frekar sorglegt. Þessir þættir voru náttúrulega þeir bestu í heimi á sínum tíma (auðvitað fyrir utan Simpsons). Reyndar var þátturinn ágætur. Svakalegt þegar erkifíflið Romano missti höndina!
Jæja,skellum spurningunni fram. Og Atli, hættu að nota google til að finna svörin við spurningunum!
Q4: Hvaða tvö lið börðust um Íslandsmeistaratitilinn '89, hverjir sigruðu og hvað munaði mörgum stigum á liðunum?

þriðjudagur, október 07, 2003

"Ekki veit ég hvar þú fékkst þennan 5000 kall en það get ég sagt þér að þennan 5000 kall á ég". "Hæ, þetta er nýja kærastan mín, Halldór". Fóstbræður eru svo mikil snilld. Fékk eina spólu lánaða hjá Svíanum og búinn að grenja úr hlátri. Atriðin í Kormáki og Skildi eru líka algjör snilld.
Eftir tvær spurningar eru Atli og Daði jafnir. Daði verður reyndar ekki á landinu um helgina en ég mun drekka bjór í hans nafni ef kauði stendur uppi sem sigurvegari. Annars hlýtur Svelgurinn að teljast líklegri vegna velþekktrar ástar sinnar á bjórnum!
Q3: Frá hvaða liði keypti Bayern Munchen rauðhausinn og besta vin Heiðars Helgu Oliver Kahn ?

Þá er það komið. Nýtt og glæsilegt commentakerfi þökk sé Malone.
Buffið hefur tekið forystuna í spurningakeppninni með svari sínu við Q1 via e-mail.
Ans: Árið var 1973 og Jóhannes Eðvalds og Ásgeir Sigurvins skoruðu mörkin.

Eins og nokkrir snillingar hafa bent á þá er commentakerfið í fokki. Lagast innan skamms.

Bolti í gærkvöld og e-r gaur hljóp framan á hnéskelina mína þ.a. núna er ég haltrandi út um allt hús eins og aumingi. Ekki nóg með það heldur steig ég oní e-ð djöfulsins tað fyrir utan reiðhöllina þegar við vorum að ná í mörkin. Sökk í fyrsta skrefi og stökk upp úr því en þá var bara tað næstu 3-4 metrana. Skórnir frekar ógeðslegir.
Þar sem 99% af lesendum þessarar síðu er fótboltaáhugamenn þá þykir mér frammistaðan í svörun spurningar 1 ekki til eftirbreytni. Atli er eflaust hættur að taka þátt í svona eftir niðurlæginguna þegar hann hringdi inn í útvarpsþáttinn Ping Pong í svipuðum leik.
Q2: Hver skoraði sigurmark Barcelona gegn Sampdoria í úrslitaleik Evrópukeppni Meistaraliða í framlengingu á Wembley '92 ?

sunnudagur, október 05, 2003

Þrisvar í bíó á 24 tímum. Já, persónulegt met alveg örugglega. Fyrst átti Bjössi frímiða í gær á Seabiscuit sem var allt í lagi mynd. Svo í dag skelltum við okkur á frumsýningu stuttmyndarinnar "Karamellumyndin" sem skartar m.a. Jóni Gnarr og Maríkó. Ekkert talað í myndinni, frekar furðuleg. Svo hringdi Gyðingurinn og sagði að það kostaði bara 300 kr á American Pie-the wedding. Auðvitað skellti fátækrastéttin sér á myndina með viðkomu í pool þar sem sláturvertíðin hófst fyrir alvöru. 5-1 mér í vil þrátt fyrir óendanlega sænska heppni.
Vá hvað það styttist í leikinn. Ein vika. Knattspyrnugetraun fram að leik hér á blogginu. Ein spurning á dag og sá sem svarar flestum rétt fær verðlaun í fljótandi formi á leikdag.
Q1:Hvaða ár vann Ísland Austur-Þýskaland á Laugardalsvellinum og hverjir skoruðu mörk Íslands?

laugardagur, október 04, 2003

Oktoberfest í gær ala Páll Heimisson heppnaðist þvílíkt vel. Pakkað út úr tjaldi og almenn gleði á staðnum. Óskiljanlegt samt sem áður að hann hafi fengið að halda þetta á Háskólatúninu. Temmilega rólegur samt og mættur ferskari en nokkru sinni fyrr í Efnfræði í fyrramálið.
Stuðmenn á Broadway í kvöld og mikið langar þvílíkt að fara. Atli er frekar spenntur en to be honest þá getur maður ekki farið einn með Atlanum. Þess vegna bið ég allar flottu tjellingarnar sem lesa þetta (living in a dream) að bjarga mér út Atlaeinangruninni og kíkja á ballið.
Fórum í golf í gær, Fjalarr,Gunni,Káki, Midfield og Sigurjón. Að sjálfsögðu sigraði ég með 2 höggum enda þjóðaríþrótt Skotans. Hef ekki sigrað á "golfmóti" síðan á Unnur-open í sumar.
Arsenal vann Liverpool áðan. Vonbrigði.

föstudagur, október 03, 2003

Fór í tónlistarsögutíma á miðvikudag og viti menn. Algjört súrefnisleysi í stofunni gerði það að verkum að ég steinsofnaði. Allt í einu heyri ég "Tumi, Tumi" og opna augun og sé kennarann ,sem ég vissi ekki einu sinni að þekkti mig með nafni þar sem þetta var annar tíminn, undrandi á svip. Þetta atvik rifjaði upp góðar stundir eins og þegar ég sofnaði í fyrsta hraðlestrarskólatímanum sem endaði með sama hætti, þ.e. vakningu kennarans. Líka þegar Arnbjörn barði í borðið mitt þ.a. ég hrökk upp af værum blundi í 3.bekk MR. Svo þegar ég "bjó" í Þýskalandi og Fraulein e-ð sagði að ég yrði að vera vakandi ef ég ætlaði að vera áfram í stofunni. Já, eins og Ralph segir:"Sleep, that's where I'm a viking".
Oktoberfest í kvöld og mér finnst eins og gjörsamlega allir ætli að kíkja. Páll Heimisson greinilega að skila markaðsstarfi sínu mjög vel.
Hvað var Sigga Beinteins flott í gær? Hún verður flottari með hverju árinu.

fimmtudagur, október 02, 2003

Fótboltabuxurnar mínar voru aðeins farnar að láta á sjá og bara spurning hvenær vinstri skálminn myndi rifna af þ.a. ég skelti mér í Jóa Útherja í morgun, meira til að skoða. Gekk svo út 15 mín seinna með íþróttagalla, auka buxnapar og gervigrasskó. Kostaði reyndar innan við 12þús þ.a. það er held ég allt í lagi. Í tilefni nýrra buxna hljóp ég hringinn í kringum tjörnina í von um að hitta frænkuna en þar var enga frænku að sjá.
E-ð er metnaðurinn að minnka hjá umbygg nemum. Vísindaferð í malbikunarstöðina á morgun og aðeins ~20 búnir að skrá sig. Síðast lauk skráningu á 27 sek. From hero to zero.
United voru ömurlegir í gær. Hefði betur skellt mér á Stjarnan-Víkingur þar sem allt gekk upp. Þórólfur var markahæstur hjá Stjörnunni og Víkingur vann. Chelsea leikurinn toppaði reyndar kvöldið.
Fórum í bolta eftir leikinn og kíkti svo til Bolla á Ruby.
Var Halldór Laxness tvíkynhneigður? Stjórnmálafræðinemar tveir og vinir HHG, köllum þá X og Y, eru fastir á þeirri kenningu eftir vísindaferð nokkra. Mundi reyndar útskýra what all the fuss is about.

Að lokum má enginn missa af þætti Jóns Ólafssonar Með fingrum fram í kvöld. Gestur Jóns er enginn annar en listamaðurinn mikli og ein allra ástsælasta söngkona þjóðarinnar frú Sigríður Beinteinsdóttir.

miðvikudagur, október 01, 2003

Bolli búinn að draga framboð sitt tilbaka og þykir mér miður. Auðvitað er fáránlegt að fólk skuli geta skráð sig í flokkinn rétt fyrir kosningar en þetta hefur alltaf verið gert og fáránlegt að allar þessar 1152 skráningar hafi allar verið stöðvaðar. Er núverandi stjórn búin að tala við alla þessa 1152 og kynna sér hvort hún/hann ætli sér að skrá sig úr flokknum að kosningum loknum? Þetta er í meira lagi asnalegt. En góðu fréttirnar er að nú getur Bolli einbeitt sér að náminu og komið oftar í fótbolta!