miðvikudagur, desember 31, 2003

Við Atli erum búnir að vera saman núna í 7 ár. Það gengur alltaf erfiðar og erfiðar að halda þessu leyndu og því höfum við tekið þá ákvörðun að áramótin verði tími breytinga og hlökkum við til að samfagna með ástvinum okkar í kvöld. Gaman að segja frá því að þegar við auglýstum hjá vinafólki okkar að við værum á interrail þá vorum við í raun á gay-festival í Utrecht og höfum aldrei skemmt okkur betur. Þeim sem finnst að hefðu átt að fá að vita þetta biðjum við afsökunar en vonum að hinir sömu geti samfagnað þessari breytingu á lífi okkar.
Gleðilegt nýtt ár !!

þriðjudagur, desember 30, 2003

Ólafur Stefánsson íþróttamaður ársins árið 2003 og vel að því kominn. Annars stóðu Eiður og Ólafur algjörlega upp úr. Kæmi mér lítið á óvart ef sama staða væri eftir nákvæmlega ár. Annar sigrar hinn með e-m atkvæðum.
Strákarnir í 6.X áttu góða kvöldstund hjá Bolla áðan. Allar hetjurnar mættar og þvílík veisla. Spaghettí au Bolli, eplakaka au Malone og súkkulaðikaka au Ari. Þá var gripið í spil. Dregið var í lið og stökk ég hæð mína í lofti þegar við Stebbi drógumst saman. Byrjuðum í Actionary og héld ég að ég hefði e-ð misskilið spilahæfni Stebba þegar hann á e-n óskiljanlegan hátt gat ekki giskað á "eyrnatappa" þegar ég vann hreinlega leiksigur. Annars stóðu tvö pör gjörsamlega upp úr. Við Thorbergsen auðvitað og svo Einar og já, trúið því eða ekki, Martin en mörgum er í fersku minni þegar Martin lék "lyfseðil" fyrir örfáum vikum með þvílíkum tilburðum að Gunni hreinlega missti andlitið. Jens/Bolli og Ari/Jónas gerðu sitt besta en eins og þegar Íslendingar keppa í körfubolta þá var það ekki nóg. Til að gera langa sögu stutta tókum við Stebbi bæði Actionary og Trivial frá 1984.
Annars langar mig svo mikið út að hreyfa mig að orð fá ekki lýst. Ef e-r möguleiki er á þá fer ég í fótbolta fyrir hádegi á morgun.
Þar sem þetta er skelfileg færsla bíð ég með lokablogg ársins til morguns þegar ég kem með bombuna.
Smá vísb: ég kem EKKI út úr skápnum

E-r fertug kona í Kína ákvað að hefna sín á kallinum sínum eftir rifrildi með því að hlaupa um nakinn utandyra. Kallinn hljóp víst á eftir henni og bað hana og vegfarendur afsökunar en kellingin hljóp þar til löggan stoppaði hana. Snilld.
Nú er spurningin;
1) á kallinn passa sig að móðga konuna sína aldrei aftur til að þetta endurtaki sig ekki og þannig munu þau lifa hamingjusöm forever
2) á hann eftir að uppgötva að hann er kvæntur geðveikri kellingu og skilja við hana
3) verður konan dæmd til 5 ára fangavistar fyrir athæfi sitt

Nú er ég búinn að læra lostafullan tangó, marsa mambó og ítalskt tjútt. Veit ekki hvort mér tekst að læra alla dansana fyrir morgundaginn. Allavegna ekki ef ég heng áfram á netinu. Later

mánudagur, desember 29, 2003

Hvað er eiginlega mikill snjór úti. Búinn að stytta mér stundir í dag að fylgjast með hinum og þessum vitleysingjunum festa sig í snjónum fyrir utan. Snilld að vera í fríi og geta bara hangið heima. Gjörsamlega búinn að snúa sólarhringnum við. Vakna upp úr 12 á hverjum degi en er svo þreyttur að ég sef bara áfram.
Styttist í áramótapartý aldarinnar þar sem allt flotta fólkið verður víst samankomið.

sunnudagur, desember 28, 2003

"The greatest thing of all is to love and be loved in return". Hmm, hvaða mynd ætli ég hafi verið að sjá í fyrsta skipti?

laugardagur, desember 27, 2003

Það tilkynnist hér með að Martin a.k.a. Malone hafði þangað til í gærkvöldi aldrei heyrt um landið Azerbajdan. Hins vegar stóð hann fastur á því að Kákasus væri land í fyrrverandi Sovét. Hér sannast greinilega hið forkveðna:"eiturlyf drepa heilafrumur".

föstudagur, desember 26, 2003

Hemmi Hreiðars er kóngurinn. Þvílíkt mark og þvílíkur leikur. Eiður skoraði líka þ.a. þetta var fullkomið. Nú þarf UTD bara að vinna á eftir. Fréttir dagsins eru hins vegar þær að Dollý var valinn í pressuliðið sem mætir landsliðinu á morgun í Austurbergi. Hvet alla til að mæta og sjá hann leika listir sínar með knöttinn. Reyndar sýnt í sjónvarpinu líka.
Þrátt fyrir fjölda hvítra lyga um að ég sé gasalega flottur núna þá er nokkuð ljóst að klipping er málið, a.m.k. snyrting. Skelfilegt að þurfa að greiða til hliðar. Nú kemur bara tvennt til greina, snoðun eða kamburinn.
Ég er ekki mikill snjókall en verð þó að viðurkenna að það er jólalegt að allt sé hvítt úti.
Spurning hvort það verði djammað í kvöld eða tekið upp á e-i annarri snilld.

miðvikudagur, desember 24, 2003

Bubbi fór á kostum á NASA í gær. Spilaði í 2 1/2 tíma fyrir fullu húsi. Svo var farið á Ingólfstorg og dansað kringum jólatré í hópi MR-inga. Hef ekki dansað kringum jólatré síðan ég veit ekki hvenær svo þetta var skemmtileg tilbreyting.
Lokastaðan í könnuninni er sú að klipping vinnur 10-9 þ.a. ætli maður skelli sér ekki milli jóla og nýárs. Tóta frænka var reyndar að bjóðast til að taka pottinn á þetta áðan en ég lét það nú vera. Atli er nú vís til að munda Swiss army skærin líkt og í Pompey en ætli atvinnumenn fái ekki að reyna sig á þessu í þetta skiptið.
Annars vona ég að þið hafið það sem allra best í kvöld og næstu daga. Gleðileg jól
Take it away Helgi:
"Aldrei framar neitt illt í heimi-óttast þarf engillinn minn því ég er hér og vaki"

þriðjudagur, desember 23, 2003

Ég er gjörsamlega að fara hamförum. Búinn að redda jólagjöfunum og er búinn að hræra tvö deig, piparkökur annars vegar og súkkulaðibitakökur hins vegar. Maður rétt bregður sér til að tjekka á einkunnunum en sú fyrsta var að detta inn. Solid 9 í rekstrarfræði enda hef ég stundað þá námsgrein jafnt og þétt í vetur sem er eina leiðin ætli maður sér góða hluti í þessu fagi.
Heyrst hefur að fólk ætli að dansa í kringum jólatréð á Ingólfstorgi í kvöld. Ef e-r snillingur getur staðfest þetta og komið með tímasetningu þá væri það frábært.
Take it a way George:
"This time to save me from tears I'll give it to someone special (echo:special)"

mánudagur, desember 22, 2003

Komið upp smá stress með tónleikana hjá Bubba. Víst aðeins 100 miðar eftir sem verða seldir fyrir tónleika á morgun. Verður eflaust hart barist í röðinni. Ég gat ekki farið sem 5ta hjólið með þeim Martin og Helgu og Heiðdísi og Ella þ.a. já you guessed it við Óttar ætlum að skella okkur saman. Og við skömmumst okkar ekkert. Mér finnst við bara hugrakkir.
Við verkfræðistrákarnir skelltum okkur í mánudagsboltann áðan. Fínt að fá sér smá hreyfingu fyrir jólasteikina þótt það verði staðfest tekinn bolti yfir hátíðarnar. Þetta er ósanngjarnt, vélin er búin að fá út úr tveimur prófum á meðan við höfum ekki fengið út úr neinu. Reyndar allt í lagi að bíða með efnafræðina fram yfir jól til að geta haldið þau hátíðleg en annað mætti nú alveg skila sér.
Það er óendanlega stórt hús sem stendur á milli Ráðhússins og Alþingis. Við Malone hringdum bjöllunni þar í dag til að spyrjast fyrir hvað væri eiginlega þarna inni. Gaur sem kom til dyra sagði þetta vera hús ODDFELLOW reglunnar. Ég spurði þá hvort það stæði þá galtómt í augnablikinu. Hann horfði á mig hneykslaður og sagði fullt af fólki vera þarna inni. Ok, er fólk í fullu starfi sem Oddfellowi? Er þetta ekki meira svona að hittast á miðvikudagskvöldum og æfa púttin sín? Þetta eru spurningar sem tilvalið hefði verið að dúndra á gaurinn en hann var ekki mikið fyrir snakkið og eiginlega lokaði á okkur sakleysingjana.

Við Martin tókum miðbæinn í gegn í dag. Lögðum í hann upp úr 1 og komnir heim um 17:30. Hápunktur dagsins var tvímælalaust þegar við fórum í Þjóðmenningarhúsið. Skoðuðum m.a. skákborðið sem Fischer og Spasský sátu við 73 í einvíginu mikla. Það er reyndar bara opið um helgar en þar sem þetta vorum við gerði konan undantekningu og tók okkur bara í private tour. Lásum líka fundargerð þjóðfundarins o.fl.
Lápunktur dagsins var svo þegar við hittum Gústa á jólamarkaði á Fiskislóð. Vorum að keyra þarna og sáum e-n markað. Hey, kíkjum inn nema þetta er slakasti markaður sem ég hef á ævi minni komið á. Gústi skemmti sér við að opna hvern hnífinn á fætur öðrum án þess samt að takast að loka þeim. Þegar þetta er skrifað er Gústi eflaust enn að rembast við að loka hnífunum.
Sem komið er vill meirihluti fólks að ég fresti klippingu um óákveðin tíma. Mamma og pabbi verða ekki sátt við ykkur.

sunnudagur, desember 21, 2003

Kominn er upp ágreiningur á heimi mínu hvort ég eigi að fara í jólaklippingu. Endilega segið ykkar skoðun í fyrstu og eflaust síðustu könnun síðunnar.

Jæja þá er ég búinn að sjá "Hilmar snýr aftur". Ferðin sem hófst fyrir tveimur árum er lokið. Ég vil nú ekki eyðileggja spennuna fyrir ykkur hinum en ég stenst samt ekki mátið: HÚN ENDAR VEL!!! HAHAHAHA. Gott á ykkur.
Bara MC-Bongó blíða úti núna. Og við sem vorum að skipuleggja fótbolta á morgun. Látum þetta nú ekki stöðva okkur.
Sá að Haukar unnu en duttu samt út. Djöfuls bömmer.

Jón Ólafs er í gangi og þar er enginn annar en vinur litla mannsins Helgi Pé gestur. Við Bjössi fengum þess vegna þá dúndurhugmynd að stofna dúettinn "Two hot guys" og verðum með okkar fyrsta gigg á Laugaveginum á eftir. Við munum syngja hin og þessi lög til að koma fólki í gírinn. Fólk þekkir lög á borð við "I'm to sexy", "Scatman" og "Can't touch this" sem við munum gera ógleymanlega í okkar búningi. Reikna með að sjá sem flesta aðdáendur okkar niður frá á eftir.

föstudagur, desember 19, 2003

Stórskemmtilegt hjá 2.árinu í gær. Fórum á Casagrande og fengum e-ð að borða og drekka og svo var gleðskapnum framhaldið á, já ótrúlegt en satt, Bagel House. Það er e-ð kaffihús efst á laugaveginum. Það fyrsta sem ég sá þegar ég kom inn voru tebollur og svo kanilsnúðar. Ég stóðst samt freystinguna og lét meiri bjór duga. Einu sinni var endalaust gert grín að mér fyrir annaðhvort að kunna enga texta eða fara hrikalega með þá. Nú eru breyttir tímar. Í gær var m.a.s. haft orð á því við mig að ég kynni hreinlega alla texta. Arnþór veit líka hversu góður ég er að busta rímur og þá sérstaklega þær er meistari Eminem hefur kvaðið. Anywho, virkilega gaman og vinur litla mannsins Kenneth gjörsamlega á rassgatinu sem er mjög gott.
Annars er maður á leið í tvær stúdentsveislur á eftir og svo er auðvitað lokadjamm á morgun auk þess sem Kópavogsmærin Þórunn heldur upp á tvítugsafmælið. Greinilegt að maður þarf að pússa dansskóna, fá last moment ráðleggingar frá Midfield og svo henda sér á gólfið. Gústi gæti líka kennt mér orminn. Ég vil orminn í jólagjöf frá Gústa!
Mál málanna í ár er svo að skella sér á Bubba á Þorláksmessu. Við Martin og Elli ætlum í hverju falli að skella okkur og auðvitað allir snillingar velkomnir að bætast í hópinn. Ég held að það sé alltaf uppselt á þetta þ.a. maður þarf að redda sér miða tímalega.
Að lokum óska ég öllum örtölvu- og mælitæknifræðingum framtíðarinnar góðs gengis í prófi morgundagsins og biðst hóflega afsökunar á að hafa gefið ákveðnum einstaklingum falskar vonir um "easy way out". Nei, það er bara vil-get-skal og standa sig á morgun. Later

fimmtudagur, desember 18, 2003

"They think it's all over, it is now". Já, prófin búin. Efnafræðin reyndar frekar strembin og sérstaklega tímafrek en þar sem þetta var síðasta prófið fer maður ekkert að svekkja sig. Við Kenny,Tryggvi og Dollý fengum okkur sveittan burger og bjór á Vitabar eftir prófið. Tryggvi náttúrulega rétt að byrja í prófum svo það var enginn bjór fyrir hann. Reyndar voru Kenny og Dollý á bíl þ.a. ég var reyndar sá eini sem fékk mér öl en what the fuck. Svo er ég bara að lognast út af og stefni á lagningu fram að kvöldmat. Svo er gathering hjá 2.árinu á Casagrande í kvöld þar sem verður fagnað og Kenneth tekur orminn.
Ég rakst á síðu með fullt af gömlum prófum úr örtölvu- og mælitækni og sá reyndar eitt próf merkt 2003. Spurning hvort það sé prófið sem liðið er að fara í á laugardaginn. Vélapakkið væntanlega búið að sjá þetta.
Jæja, lagningin og svo bjórinn. Verður það betra?
Take it away Helgi:
"Ef ég get slegið einhvern þá fær, ástin mín gjöf frá mér"

miðvikudagur, desember 17, 2003

Who let the dogs out, who who who who!! Rekstrarfræðin búin og aðeins eitt próf eftir, my beloved efnafræði. Sú var tíðin að Grétar Már Ragnarsson Amazeen reyndi að troða efnafræði inn í hausinn minn með misjöfnum árangri en nú hefur þetta breyst. Ég get ekki treyst á neinn nema sjálfan mig, ég get ég vil ég skal.
Nei annars er frábært að þetta próf er á morgun. Þá asnast ég kannski til að læra í dag. Annars hefði maður verið í e-u dúttli fram að prófi. Ég segi nei, þetta verður tekið með trompi, prófinu slátrað á morgun og farið á fyllerí með góðri samvisku. Við Bolli og Jens ætlum að fagna saman með því að skella okkur á MR-ballið. Ætlunin er að fá kerruna hans Jónasar lánaða og fylla hana af glæsigripum.

Svo er hér ein spurning fyrir "Buffið" og "Fat Bastard". Hvað er Zidane eiginlega góður?

þriðjudagur, desember 16, 2003

Hálfnaður með prófin og búinn eftir tvo daga. Snilld snilld og aftur snilld.

sunnudagur, desember 14, 2003

Búið að ná Saddam Hussein. Náðist líka þessi fína mynd af honum eins og sjá má á mbl.is
Jæja, þá þarf bara að finna gaurinn sem drap Geirfinn.

Todmobile flottir í gær. Byrjuðu auðvitað upp úr 1 en héldu uppi þvílíkri stemmningu. Gaman að kannast líka við flest lögin eftir tónleikana um daginn. Þeir eiga fullt af snilldarlögum. Stúlkan, Í tígulaga dal, Trylltur dans, Brúðkaupslagið, Ég heyri raddir, Lof mér að sjá og fleiri sem ég man ekki. Svo náði kvöldið hámarki þegar Eyþór tók "Mein Herz Brennt" með Rammstein, titillag "Lilja 4ever" sem er fáránlega flott lag. Tók reyndar líka "Give it away" eða hvað það heitir með Red Hot Chillipeppers.
Jæja, þá er það lærdómur út daginn. Later

laugardagur, desember 13, 2003

Letin kom mér í koll enn eina ferðina. Ég ætlaði að fara út í Gerplu og taka einn lengjumiða kl 14 í dag en þegar ég sá hvað það var kalt úti nennti ég ekki út. Ástæðan var sú að ég var alveg pottþéttur á að Bolton ynni Chelsea og Bayern ynni Stuttgart. Svo hefði ég bætt við einum pottþéttum eins og Stjarnan-Breiðablik og lagt 300 kr undir. Hmm, 300*5*2,35*1,3=5000 kall sem er fín desemberuppbót fyrir fátækan skoskan námsmann. En nei ég nennti ekki. Minnir mig bara á jólalög. Frábær úrslit þótt United verði bara á toppnum til morguns.
Ég held ég hafi aldrei verið jafnsvangur og akkurat núna. Gunnhildur er að ná í Kentucky og ég get ekki beðið eftir að fá kjúllann í magann. Svo Todmobile tónleikar á miðnætti. Eins gott að Eyþór frændi og félagar verði ekki með neitt celeb entrance upp úr 1 eða e-ð. Nenni ekki alveg að snúa sólarhringnum við í miðjum prófum.
Já og meðan ég man, Flosi Eiríksson er ekki flaur.

föstudagur, desember 12, 2003

Ekki á hverjum degi sem bloggað er með aðeins nokkurra klukkustunda millibili. Var að lesa viðtal við Katrínu Júlíusdóttur, ubergellu og þingmann Samfylkingar í Birtu áðan. Hún býr ein með 7 ára syni sínum og allt gott og blessað um það að segja nema þá ótrúlegu staðreynd að barnsfaðir hennar er enginn annar en Flosi Eiríksson a.k.a. royal asshole. Minnir á setningu úr friends:
"But you know, you always see these really beautiful women with these really nothing guys. You could be one of those guys".

Jæja, stærðfræðigreiningin gekk ágætlega. Klúðraði reyndar einu dæmi sem ég hélt að ég væri pottþétt með en svo mátti ég ekki nota aðferðina sem ég notaði. Það gilda 4 dæmi af 6 þannig að restin ætti að fleyta mér sæmilega áfram. Gleðifréttir dagsins eru þær að við fengum 9 fyrir rekstrarfræðiverkefnið sem gildir 30% sem er algjör snilld. Annars er lesin efnafræði í dag enda lítill tími fyrir hana. Alltaf eins þegar maður kemur úr stærðfræðiprófum. Hausverkur því heilinn er gjörsamlega búinn á því.
United dróst gegn Porto sem er bara ljómandi. Síðast þegar liðin mættust var fyrir svona 6 árum og þá vann United heima 4-0 í fyrri leiknum og gerði þannig út um þetta strax. Vinur litla mannsins og fagnaðarkóngurinn David May var m.a.s. á skotskónum þann daginn. Bayern-Real er samt stórleikur umferðarinnar. Bayern hefur oftar en ekki strítt Real, tja reyndar bara tekið þá í gegn. Spurning hvað gerist núna.
Stefnt á bíó í kvöld. Ég vil sjá Mystic River en Þórólfur tekur ekkert í mál nema myndin sé með Russel Crowe.

fimmtudagur, desember 11, 2003

Gaman að þverpólitískum frumvörpum sem fela í sér að þingmenn og félagar græða en aðrir ekki. Svo stútaði framkvæmdastjóri ASÍ "ekki vini litla mannsins" Pétri Blöndal í Kastljósinu.
Við Martin erum þessa dagana að skipuleggja hið fullkomna rán sem mun eiga sér stað á allra næstu dögum. Þessir rán sem framin hafa verið undanfarið hafa verið illa skipulögð og barnaleg en við munum klára okkar mál og hlífa engum.
Óttar er bara búinn að bjóða mér á Todmobile tónleika á laugardaginn á Nasa. Þannig er mál með vexti að Óttar og Eyþór eru saman í bridsklúbbi og þegar Eyþór heyrði að Óttar væri ekki viss um hvort hann ætlaði á tónleikana henti hann í hann tveimur miðum og sagði: "Vertu svo viss um að taka e-n snilling með þér". Svo hringdi síminn.
Greiningarpróf í fyrramálið og dagurinn í dag búinn að vera skelfilegur lærdómslega séð. Ég hef ekki getað látið píanóið í friði og spurning um að skella sér á VR eða hlöðuna ef þetta heldur svona áfram enda sæmileg törn framundan. Falska öryggið sem gögnin veita manni í prófinu á morgun á eftir að koma manni í koll. Mark my words. Later

miðvikudagur, desember 10, 2003

Muse voru svakalegir í kvöld. Tóku alla slagarana og þvílíkur hiti og tilheyrandi sviti. Aðalgaurinn er líka of flottur þar sem hann syngur, spilar á gítar og píanó. Samt aldrei séð jafnmikið af rugluðu liði á tónleikum í höllinni. Ég hef reyndar aldrei farið á svona rokkaða tónleika áður, t.d. fór ég ekki á Rammstein og Bloodhound gang, en sumt liðið var skuggalegt. Hvar er þetta fólk á daginn? Svo þegar ég kom á troðfullt klósettið af rugluðu liði sé ég Sigmar í Kastljósinu vera að rökræða við e-n strákling um hvor hafi verið undan í röðinni á klósettið. Magnað.
Fyrsta prófið í dag og gekk allt í lagi. Þurfti samt að sleppa 1/6 af prófinu sem er ekki gott. Bót í máli að eflaust hafa fæstir getað þennan hluta. Brjálaður yfir því að kennarinn mætti ekki í prófið en komst svo að því að hann hefði mætt en ég tók hreinlega ekki eftir því. Byrjaði líka vel og fór í vitlausa stofu og læti. Eitthvað að mis...
Ég veit ekki hvort ég hef minnst á þetta hérna áður en allavegna horfði ég á brot af Íslandi í bítið í dag. Þar ráða ríkjum Fjalar og Inga Lind. Það er á hreinu að hamsturinn í kollinum á þessari Ingu er á stöðugu álagskaupi. Hún er allavegna með ekkert hlutverk í þættinum. Ég sá svona korter. Á þeim tíma var sagt frá fréttum eins og "það var mannfall í Írak í gær" og hún skýtur inn í "Oh" og reyndar fyrir hverja einustu frétt svaraði hún með e-u eins atkvæðis orði. Svo flutti hún veðurfréttirnar á skelfilegan hátt. Alveg að misskilja.
Stelpur eru magnaðar. Vinkonur systur minnar eru sérstakar. Stundum sitja þær nokkrar við borðið eins og gerðist áðan og allt í einu tek ég eftir því að þær eru allar að tala í einu og ekki þá í eitt augnablik heldur gjamma þær í e-r sekúndur þangað til þær átta sig hver á fætur annarri að engin er að hlusta á þær. Magnað moment.
Það fór svo að ég gaf Gunnhildi "Sálin og Sinfó" á DVD. Frábærir tónleikar, I should know, en ég skellti mér á tvenna tónleika og generalprufuna.

mánudagur, desember 08, 2003

Hvað er eiginlega að gerast? Það er alveg ótrúlegt hvað það eru gerðar margar ránstilraunir hérna í Reykjavík. Síðustu vikuna eða svo man ég allavegna eftir tilraun til bankaráns í Grafarvogi, tilraun til að ræna Vídeospóluna á Holtsgötu og svo áðan voru e-ir að ræna Bónuss verslun. Spurning hvort þetta séu allt gaurar í peningareddingum vegna dóps. Löggan náði líka í mann á hlemm um helgina sem ráðist hafði verið á og brotin í honum hnéskelin. Ruglað lið.
Muse tónleikarnir á miðvikudaginn og töluverð tilhlökkun. Líka yndisleg afsökun til að þurfa ekki að læra stærðfræðigreiningu á miðvikudaginn. Það má líka hafa allt með í prófið þ.a. þetta verður skítlétt. Reyndar verða dæmin þeim mun þyngri en what the fuck.
Systir mín á afmæli á miðvikudaginn og ég hef klúðrað því að kaupa gjöf undanfarin ár en þess í stað splæst í þeim mun flottari jólagjöf. Ömurlegt en samt redding. Ég er reyndar skelfilegur þegar kemur að afmælum og skemmst að minnast þegar ég óskaði Martini til hamingju með afmælið daginn sem við kláruðum prófin eða c.a. tveimur vikum á eftir áætlun. Spurning hvað ég ætti að gefa henni? Það er e-r geisladiskur með öllum 48 jólalögunum, þ.e. jólahjól, ég hlakka svo til, ef ég nenni o.s.frv. Væri gaman að hafa slíkan á heimilinu. Kannski ég gefi henni Pulp Fiction. Æi nei, ég er búinn að gera það. Jæja ef enginn kemur með betri tillögu verður það geisladiskurinn. Nei, kannski kíki ég í Tónastöðina og tjekka á því hvort þeir eigi e-r skemmtilegar nótur.

sunnudagur, desember 07, 2003

Frétt í Fréttablaðinu um gaura sem eru að hakka Nígeríska svindlara í sig. Algjör snilld. Skoðið þetta hér.

laugardagur, desember 06, 2003

Ég hlýt að vera að verða veikur eða e-ð því áðan tapaði ég fyrir Atla í Gettu Betur spilinu þar sem reynir á heppni og kunnáttu. Ég neita því ekki að Atli hefur unnið mig í Olsen Olsen en þegar reynt hefur á þekkingu eða kunnáttu hef ég alltaf haft betur. Auðvitað gaf ég honum stig hér og þar líkt og alltaf til að jafna leikinn gesti mínum til skemmtunar enda hefur maður orðið vitni að síendurteknum látum þegar félaginn tapar í spilum. Ég hélt fyrst að mér væri kannski farið að förlast e-ð en er búinn að átta mig á því að ég hlýt að vera e-ð slappur. Þegar ég fylgdi Atla til dyra fann ég fyrir hita og svo svimaði mig. Best að láta meira blogg eiga sig í bili þangað til ég hef náð fyrri hressleika. Later

föstudagur, desember 05, 2003

Ísland á EM 2008
Ísland var ekki heppið áðan þegar dregið var í riðla í undankeppni HM. Mótherjarnir eru nánast allir með þeim efstu í sínum styrkleikaflokk fyrir utan Möltu. Með Íslandi í riðli eru: Svíþjóð, Króatía, Búlgaría sem eru öll gríðarlega sterk núna, Ungverjar sem eru efstir í styrkleikaflokknum fyrir neðan Ísland og svo Malta. Það verður að segjast að möguleikarnir á að komast á HM 2006 eru engir. Later

fimmtudagur, desember 04, 2003

Sagan af því þegar Youri Djorkajeff tók mynd af mér og Zidane
Einu sinni var ég að tjilla með franska landsliðinu á Hótel Esju (nú Nordica Hotel). Þá sagði ég við Youri: "Hey Youri, could you take a picture of me and Zidane?". Youri horfði á mig hneykslaður en var samt kurteisin uppmáluð og sagði:"Sure Tumi, no problem for Youri boblem". Þá stilltum við Zizu okkur upp og Youri tók myndina.

miðvikudagur, desember 03, 2003

Jæja, bloggað í fyrsta sinn úr nýrri tölvu. Algjör snilld að geta gert tvo hluti í einu í tölvunni án þess að allt frjósi. T.d er ég núna með Radio Reykjavík í gangi sem er mjög gott.
Það er merkilegt hvað mér tekst alltaf að finna mér betri hluti að gera en að læra. Redda tölvunni, setja í þvottavélina, lesa blöðin og svo er e-n alltaf svo freystandi að snú stólnum 90° og hamra á píanóið, kúpla-bremsa. Alltaf er þetta samt eins. Með tilhugsunina í kollinum hvað allt verði frábært þegar þessu verður lokið. Svo er þetta bara allt í einu búið og maður hefur ekkert að gera. Reyndar búið að skipuleggja próflokadjamm 20.des og þá heldur Þórunn upp á afmælið sitt þannig að það verður a.m.k. djammað vel þá helgi.
Núna eru tveir kettir í slag fyrir utan. Djöfulsins óhljóð-hækka bara í bítlunum sem eru í gangi núna.
Svona góð tölva þýðir aðeins eitt-ég þarf að endurnýja kynni mín við manager og Fifa. Óttar verður snöggur að koma mér inn í stöðu mála. United tapaði í kvöld fyrir WBA og þrátt fyrir að þeir hafi verið með varalið er maður ósáttur. En Djorkajeff myndatökumaður bjargaði kvöldinu með því að skora sigurmarkið gegn Liverpool á Anfield.
Hef ég sagt ykkur frá því þegar Djorkajeff tók mynd af mér og Zidane? Tja, svona 100sinnum. Later

mánudagur, desember 01, 2003

Mættur á VR kl 07. Búinn að prenta út allar efnafræðiglósurnar. Gaman hvað svona útprentun og skipulagning afsakar það hvað maður er lengi að koma sér af stað að lesa e-ð. Fín og róleg helgi. Búinn að horfa á Fellowship og klst af Two Towers. Gunnhildur og Gróa með jólatónleika í gær. Ekkert jólalag! Flott hjá þeim engu að síður. Pönnukökur og læti eftir tónleika hjá Kópavogssystrum sem pretty much kláraði kvöldið => samviskubit => ég mættur á VR.
Fullorðið fólk var í gær að tala um hvað lagið með Helga Björns, "æi hvað heitir það aftur" væri alveg yndislegt jólalag. Þetta er fínt lag og sérstaklega gaman að textanum. Þetta er eitt af þeim jólalögum sem má vera í útvarpinu þegar maður kveikir. Óþolandi þegar maður kveikir og e-r er að syngja "nú er Gunna á nýju skónum" eða "ég sá mömmu kyssa jólasvein".