miðvikudagur, apríl 19, 2006

Blessuð blíðan í Seattle. Vorönnin fer vel af stað og virðist ætla að vera mun þægilegra en vetrarönnin sem var vægast sagt brjáluð. Er í þremur kúrsum; jarðskjálftaverkfræði, brúarhönnun og “strut & tie modeling” sem ég veit ekki hvernig þýðist á íslensku auk þess sem ykkur gæti ekki verið meira sama.

Síðast þegar ég skrifaði e-ð á þessa síðu var ég á leiðinni til Denver og þangað komst ég þrátt fyrir smá seinkunar vesen. Það var þvílíkt gaman og fullt af hressu fólki. Alls voru um 170 Fulbright styrkþegar frá um 80 löndum þarna og ég get fullvissað ykkur um það að það er skemmtilegra að vera eini Íslendingurinn en einn af 10 Þjóðverjum eða Pakistönum. Meðal þess sem við gerðum auk þess að hlusta á e-a fremur leiðinlega fyrirlestra var að heimsækja "high school" í Denver og snæða kvöldverð með local fjölskyldu. Ég sagði krökkunum alls konar hluti um Ísland og bar hæst fegurðardrottningarnar okkar auk brandara um kindur og Björk sem féllu merkilega vel í kramið.

Ein skemmtilegasta reynslan í ferðinni voru samskipti mín og herbergisfélaga míns, Soleiman frá Pakistan. Sá ágæti félagi var örugglega 3-4 árum eldri en ég og svolítið sérstakur. Fyrstu nóttina kom ég heim af djamminu um 02:30 og hann löngu sofnaður. Heyri ég þá e-ð píp á þriggja mínútna fresti. Tók ég símann og útvarpið úr sambandi en fann ekki lausnina. Sökum ástandsins á mér átti ég þó í litlum vandræðum að sofna. Daginn eftir þegar hr. Soleiman rís úr rekkju er hljóðið enn í gangi. Ég spyr hann hvort hann hafi nokkuð hugmynd um hvað hljóðið er og hann svarar að þetta sé nú bara síminn hans að verða batteríslaus!! Hvarflaði ekkert að honum að slökkva á símnaum.

Soleiman kippti sér ekkert upp við þetta og dreif sig í sturtu. Hálftíma síðar kemur hann út af baðinu og segir að það hafi e-ð gerst inni á baði og það sé allt rennandi blautt og hann geti ekki þurrkað það. Ég botna ekki alveg í honum og lít inn á bað. Er þá 2cm vatnslag yfir öllu baðherbergisgólfinu. Hvers vegna? Jú, þrátt fyrir að Hyatt lúxushótelið hafi tvöfalt sturtutjald ákvað félagi Borat að hafa þau bæði fyrir utan baðkarið með tilheyrandi afleiðingum. Leið heill dagur þangað til ég nefndi loksins við hann hvort hann ætlaði ekki að gera e-ð í þessu enda var ég orðinn frekar þreyttur á að klæða mig úr sokkunum þegar ég ætlaði inn á bað.

Soleiman að tjekka á einni Fulbright gellunni.

Nótt nr.2 kem ég í seinna fallinu heim úr bænum og sé ekki fram á að ég hafi það í morgunmat kl 7:30. Skrifa ég miða til félaga Soleimans og bið hann vinsamlegast um að vekja mig EKKI um morguninn. Miðann legg ég við rúmið hans á þeim stað þar sem ég tel 100% líkur á að hann sjái hann um morguninn. Leggst ég til hvílu. En viti menn. Á slaginu 7:30 er kippt í vinstri fótlegginn á mér og sagt að kominn sé tími á morgunmat. Ekki var það heraginn á Soleiman sem gerði það að verkum heldur hafði hann á e-n óskiljanlegan hátt ekki séð miðann.

Kvöddumst við svo á sunnudeginum með virtum og sagðist ég myndu henda á hann e-maili fljótlega svo við gætum verið í sambandi.(en mín e-mail adressa var ein af örfáum sem voru ekki gefnar upp í viðamiklum bæklingi sem allir fengu). Nokkrum dögum síðar ætla ég að henda á félagann línu og mér til mikillar undrunar er e-mailið hans “Soleimam með M-i en ekki N-i eins og virtist augljóst”. Eins skarpur og ég er taldi ég að um prentvillu hlyti að vera að ræða en sendi e-mail á báðar adressurnar til vonar og vara. Nokkrum tímum síðar fæ ég svar frá stelpu sem heitir Sarah í sama skóla og kannast ekkert við hrakfallabálkinn Soleiman. Svo fæ ég nokkru síðar svar frá hetjunni og var þá adressan hans með M-i eins og stóð í bæklingnum. Það sem mér finnst fyndið við þetta er að í upphafi skólagöngu hans hefur hann verið að velja sér e-mail og komist að því að soleiman@..... Adressan var upptekin. Í stað þess að velja sér adressu með upphafsstöfunum, gælunafni, eftirnafni o.s.frv. ákvað hann að breyta aftasta stafnum í nafninu sínu og hefur M verið augljós valkostur því M svipar til N. Gæti ég trúað að þetta hafi valdið missklingi í fleiri tilfellum en mínu.
Líkur þar með sögunni af hetjunni Soleiman.



"Student of the Month" í Northglenn High School.

Fótbolta og glímukóngurinn Laine sá um að sína okkur skólann.

Blindfullur Ástrali sem reyndi að kenna mér óteljandi írsk og skosk "drinking songs" kl 04 um nóttina.

Oliver frá Danmörku og Josh frá Ástralíu. Toppnáungar.

Skyldumæting
Sunnudagskvöldið 30. apríl kl 20 er Gunnhildur systir með útskriftartónleika í Salnum í Kópavogi. Hvet ég alla til að mæta enda fyrsta flokks performer á ferðinni, ókeypis inn og óstaðfestar fregnir herma að boðið verði upp á léttar veitingar að tónleikum loknum.

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Kallinn heilsar heltanaður frá SeaTac flugvellinum í Seattle. Hérna hef ég setið síðustu þrjá tímana og verð hér a.m.k. einn í viðbót. Förinni er heitið til Denver á Fulbright ráðstefnu þar sem verða samankomnir Fulbright nördar eins og ég frá öllum krókum Bandaríkjanna og hópurinn eflaust alþjóðlegur. Ólíklegt að nokkur eigi þó nokkuð í Tan-Tuma þegar kemur að taninu.

Fjölskyldan er komin og farin. Kvintettinn hans pabba gerði stormandi lukku á þeim þremur tónleikum sem þeir héldu. Geisladiskar seldust upp og í heildina um 800 manns sem lögðu leið sína á tónleikana. Hélt svo með fríðum hópi til Whistler um síðustu helgi. Þar var skíðað baki brotnu í tvo daga og ég var orðinn helvíti liðtækur seinni daginn. Við Geiri lögðum leið okkar á toppinn og skíðuðum niður lengstu braut N-Ameríku. Datt ég aðeins einu sinni á þessari þrautargöngu minni sem telst vera magnaður árangur. Aðrir í för voru frú Mary Frances, Baldvin og Gunnhildur, Atli og Ásdís auk föðurbróður míns Niall og konu hans Jane. Gistum í fínasta bústað og létum fara vel um okkur.

Úr fótboltaheiminum er það að frétta að Sporting FC, liðið okkar Atla, sigraði í efstu deildinni í GSSL (greater seattle soccer league). Enduðum í öðru sæti í riðlinum og unnum svo 3-1 í undanúrslitum og úrslitaleikinn 1-0 eftir mikla baráttu. Heima á klakanum var Fame að vinna Íslandsmótið innanhúss þ.a. úrslitin eru eins og þau eiga að vera.

Síðast en ekki síst hafa Saxe bræður fjárfest í glæsikerru. Um er að ræða Ford Focus af 2001 árganginum. Rennur kerran sérstaklega mjúklega eftir strætum Seattle og ekki ólíklegt að rennireiðin fái að sjá fleiri hluta Bandaríkjanna eftir því sem á sumarið líður.



Geiri fann til hungurs í Portland og fór á fjóra eins og sá sem skyldi leifarnar eftir fyrir hann.


Æfingaferð okkar Geira og Hiro til Snoqualmie.


Familían fyrir utan glersafnið í Tacoma