miðvikudagur, ágúst 18, 2004

"Ég fer í fríið, ég fer í fríið, ég fer í fríið". Já betra verður fararteskið ekki en sigur á Ítölum í kvöld 2-0 á stútfullum laugardalsvelli. Alveg magnað að sjá bylgjuna fara allan hringinn svo ég tali ekki um þegar Eiður hirti frákastið og svo þegar Gylfi "heiti" Einarsson hamraði boltann í netið. Greinilega sjóðandi heitur í augnablikinu enda nýbúinn að ganga frá Rosenborg. Við Skermurinn fjárfestum í íslenskum fána og svo verður víkingahatturinn með í för þ.a. við verðum svakalegir á San Siro eftir viku.
Aldrei að vita nema maður skelli e-u hérna inn þegar maður kíkir á netcafé úti en annars bið ég bara fyrir kveðju, sérstaklega til hetjanna sem sitja sveittar yfir sumarprófunum. Later!

mánudagur, ágúst 16, 2004

Fame leikur í kvöld gegn efsta liði riðilsins Hómer. Áttum leikinn frá upphafi til enda og sigruðum 4-1. sport.is spáði okkur 4-0 tapi þannig að þetta var helvíti sætt. Hjalti var dúndurgóður á miðjunni og reyndar áttu allir mjög góðan leik.
Við Atli tókum massann á þetta á sunnudaginn og skokkuðum upp Esjuna. Vorum 75 min upp og 35 min niður. Hittum Árna Indriða og fleira gott fólk á göngunni. Markmiði síðustu þriggja sumra loksins náð.
Fjórir menn fara mjög í taugarnar á mér þessa dagana:

Dagur Sigurðsson: Hefur ekkert getað með landsliðinu undanfarin ár enda spilar hann í austurísku deildinni og ég hef bara aldrei vitað af Austurríki á stórmóti í handknattleik. Hann kemur sér alltaf í erfiða stöðu og er atvinnumaður í að skjóta í varnarvegginn. Hefði verið kjörið að skilja hann eftir fyrir Arnór Atla á Ól.

David Bellion: Maður sem kemst ekki í liðið hjá Sunderland hefur ekkert að gera í lið Man Utd. Skelfilegur leikmaður með engan vott af karakter. Getur hlaupið en ekki með boltann þ.a. hann ætti bara að snúa sér að frjálsum.

Kieron Richardsson: Að spila sitt þriðja tímabil með aðalliðinu þótt hann hafi svo sum ekki spilað mikið. En hann hefur hreinlega aldrei sýnt neitt. Reynir og reynir að taka menn á en svona svipað og Viktor Bjarki í Víking þá tekst honum sjaldnast að komast framhjá leikmanninum. Snillingur í að sparka boltanum á undan sér og ætla að hafa manninn á sprettinum en varnarmaðurinn er á undan og skýtur í hann og útaf. Hefði ég fengið krónu fyrir hvert skipti sem ég hef séð þetta gerast.

Diego Forlan: Feilsending eftir feilsending eftir feilsending. Nær aldrei sambandi við samherja sína og hefur ekkert sjálfstraust. Hann er ágætis fótboltamaður en ekkert gengur hjá honum. Eins og staðan er hjá hópnum í dag er samt ágætt að hafa hann þarna. Skotið hans fyrir utan teig á móti Chelsea, þvílíkur brandari.

Svo ég haldi áfram að vera pirraður í sigurvímu minni þá er ömurlegt að Ítalarnir mæti með semi varalið í leikinn á miðvikudag. Vantar endalaust af stórstjörnum á borð við Cannavaro, Panucci, Del Piero, Totti, Vieri og eflaust e-a fleiri sem ég man ekki eftir í augnablikinu. Spurning um að velja bara Kjartan Henry og Jökul í liðið í staðinn fyrir Hemma og Eið. Algjört disrespect.

Annars svo enginn misskilningur sé í gangi er ég gríðarhress og hlakka til að mæta í vinnuna á morgun með sigur í farteskinu.

sunnudagur, ágúst 15, 2004

Passið ykkur veraldarvana fólk, klukkustund í leikinn og ég er kominn með Skjá 1 !!!

fimmtudagur, ágúst 12, 2004

Útivinna í dag, algjör snilld. Fórum að bora rétt hjá Elliðárvatni og ég fékk minn fyrsta sólarskammt í sumar. Sumir eru náttúrulega náttúrulega brúnir eins og ég og þurfa því ekkert á neinni brúnku að halda en samt gaman að vera úti í góða veðrinu. Rafmagnsgirðingar úti um allt á svæðinu og félagi minn tók í mig og svo í girðinguna og ég fékk þokkalegt sjokk.
Sárvantaði örbylgjuloftnet til að geta fylgst með boltanum á Skjá einum í vetur. Fyrir þá sem ekki vita þá hef ég alla mína ævi aðeins haft aðgang að Rúv og síðustu ár hinni stórkostlegu stöð Omega. Ekki einu sinni haft hljóðið á sýn og stöð 2. Tékkaði á verðinu á þessu og er það góður 15000 kall en svo bauðst vinnufélagi minn til að gefa mér örbylgjuloftnetið sitt því hann þarf ekki á því að halda lengur. Algjör snilld og næsta verkefni að koma því upp fyrir Chelsea-Utd á sunnudaginn.
Við Atli erum bókaðir til Ítalíu í tvær vikur fimmtudaginn 19. Sólin er því vonandi rétt að byrja hjá okkur. Missi reyndar af fyrstu vikunni í skólanum en hey, what the fuck!

þriðjudagur, ágúst 10, 2004

Kaffibrúsakallarnir eru svo mikil snilld:

"Varstu ekki farinn að hitta nýja konu"
"Jú, við vorum næstum búin að gifta okkur"
"Nú!, hvað klikkaði?"
"Fjölskyldan hennar var svo svakalega á móti okkur"
"Er það?"
"Já, sérstaklega maðurinn hennar og krakkarnir"

"Ætli Björn Bjarnason gæti ekki bara orðið góður utanríkisráðherra"
"Nei, hann kann ekkert í tungumálum. Einu sinni fórum við saman til Mallorca og hann fór á bar og reyndi að gera sig skiljanlegan. Þjónninn skyldi ekki neitt svo hann tók servéttu og teiknaði rauðvínsglas á servéttuna og þjónnin gat afgreitt hann með það. Þá kom svona skvísa inn á barinn, ekta seniorita og settist hjá honum og reyndi að tala við hann en hann skyldi ekkert. Þá tók hún upp servéttu og teiknaði hjónarúm á servéttuna"
"Hjónarúm?"
"Já og hann Björn er enn þann dag í dag að velta fyrir sér hvernig henni datt í hug að hann væri húsgagnasmiður"

Annars átti Atli afmæli í gær, fyrir korteri, þ.a. hann fær hamingjuóskir!

Djöfull er magnað veður í dag!!

sunnudagur, ágúst 08, 2004

Tap á tap ofan hjá FAME þessa dagana. Það var ekki beint stuttbuxnaveður á föstudaginn þegar ég mætti í morgunmatinn upp á stofu. Reyndar held ég að ég hafi fallið í áliti hjá allnokkrum starfsmönnum þennan dag því sumir horfðu á mig eins og ég væri geðveikur eða e-ð. Allavegna töpuðum við 3-1 fyrir Vængjum Júpíters í deildinni og 2-1 fyrir Ufsanum í bikarnum sem var óskiljanlegt tap því hitt liðið gat gjörsamlega ekki neitt. Við getum hins vegar augljóslega ekki neitt heldur þótt einstaklingarnir í okkar liði hafi verið margfalt betri en Guðlaugur Þór og hinir Sjálfstæðisframapotararnir í Ufsanum. Grill og öl hjá FAME í gær þar sem málin voru rædd í þaula. Horfðum líka á leikinn góða á Flúðum í upphafi sumars þar sem sól Frægðarmanna skein sem skærst.
Al Quida (hvernig sem það er skrifað) eru búnir að hóta því að sprengja Ítalíu þ.a. við Atli ættum ekki að lenda í erfiðleikum með að fá miða til Bologna á fimmtudaginn. Ætlum að taka bílaleigubíl og nú erum við að spá í að keyra norður í alpana og svo er möguleiki á að gera þetta að tveggja vikna ferð í stað eins viku.
Sá 9/11 um daginn. Hægt að hlæja að fullt af momentum í þessari mynd en mér fannst hún allt of yfirdrifin og bara svo mikið púsluspil. Það vita allir að George Bush er erkifífl en staðreyndin að Michael Moore gjörsamlega hatar þennan gaur út af lífinu skemmir svolítið fyrir myndinni á köflum. Basic spólumynd.

fimmtudagur, ágúst 05, 2004

Vikan varla byrjuð þegar hún er að klárast. Einn vinnudagur eftir sem er alltaf í styttri kantinum þannig að maður er farinn að huga að helginni. Ekkert djamm á föstudag því þá er bikarleikur hjá FAME. Hins vegar er bæði grill hjá Fame og partý um laugardagskvöldið þannig að af nógu er að taka. KB fékk þá frábæru hugmynd að skella sér við fyrsta tækifæri á Sólheima í Grímsnesi og sjá sýninguna sem Edda Björgvins hefur sett upp með íbúunum. Væri örugglega algjör snilld auk þess sem ég gæti heimsótt frænda minn sem er vistmaður þarna.
Skólinn byrjar ekki fyrr en 30. sem er algjör snilld. Við Atli ætlum að fljúga út 19. ef við verðum svo heppnir að ekki verði uppselt í ferðina. Fyrir tveimur dögum voru 20 sæti eftir í flugið en við megum ekki panta fyrr en með viku fyrirvara þ.a. við erum með hjartað í buxunum. Búnir að finna út að Inter spilar við Basel á San Siro á meðan við værum úti þ.a. við færum staðfest þangað. Kannski förum við e-ð á ströndina þótt ég þurfi það ekki enda náttúrulega brúnn að viðbættri tölvubrúnku sumarsins.
Annars er FAME leikur eftir klst og farið mitt rétt ókomið. Ef við töpum þarf ég að mæta í stuttbuxum í vinnuna í fyrramálið óháð veðrum og vindum. Engar áhyggjur. Við töpum ekki.

þriðjudagur, ágúst 03, 2004

Snilldarhelgi fyrir norðan. Byrjaði nú reyndar á partý sumarstarfsmanna á föstudaginn þangað sem ég dró Breiðfjörðinn. Þar var fínasta stemmning en e-ð minni stemmning í bænum sem var hálftómur. Ákváðum að taka road trip norður í land á laugardeginum sem við gerðum. Tjölduðum í garðinum hjá tengdó hennar Írisar í verkfræðinni. Skelltum okkur í golf á Þverárvöll í frábæru veðri. Ætluðum að taka það rólega fyrsta kvöldið sem við gerðum þótt nokkrum bjórum hafi verið slátrað. Röltum á milli staða og kíktum í Sjallann og KA heimilið. Hitti e-ð af kunningjum á báðum stöðum.
Skelltum okkur á Mývatn á sunnudaginn. Kíktum á Goðafoss í leiðinni og svo í nýja "Bláa Lónið" fyrir norðan þar sem við hittum Fríðu og Guggu sem var gaman. Frábært í lauginni en búningsaðstaðan mætti vera stærri og betri. Brunuðum svo á Ella Tomm og co að tjaldstæðinu Hömrum. Skelltum okkur í golf í frábæru veðri þar sem Kenneth fór á ókostum. Ég var auðvitað bílstjóri þ.a. allir voru komnir vel í glas þegar ég henti fólkinu niðrí bæ og fór heim að skila bílnum, hálftími í Papana. Tók tveggja bjóra sturtu á leiðinni í bæinn og þar beið snafsið sem ásamt tveimur öl í viðbót komu mér í betri gír. Þetta ball var náttúrulega tær snilld og hef ég sjaldan skemmt mér jafnvel á balli. Ari var mættur á svæðið auk Gunnhildar systur og fleiri. Þar er deginum ljósara að Paparnir bera höfuð og herðar yfir íslenskar ballhjómsveitir því hver slagarinn fylgdi öðrum og gerði allt vitlaust í stöppuðum Sjallanum.
Vöknuðum í morðhita í tjaldinu á mánudag og brunuðum í rigninguna í Reykjavík.