fimmtudagur, desember 21, 2006

Algjört chill í Seattle þessa dagana. Atvinnuleyfi komið í hús og dvalarleyfispappírar þ.a. maður getur skroppið til Kanada yfir áramótin og verið þokkalega bjartsýnn á að komast aftur inn í Bandaríkin.

Helst í fréttum er að við Grétar gerðumst stórmyndarlegir og tókum til við bakstur á miðvikudaginn. Planið var að baka einn skamt af piparkökum og annan af hálfmánum. Leitin að hráefnunum var ekkert grín og fór svo að lokum að rabbarbarasulta og hjartasalt var hvergi að finna. Við dóum þó ekki ráðalausir og afraksturinn var bara nokkuð góður þó svo ég hafi klikkað á að festa hann á filmu.


Kíkti um daginn í göngutúr með Mary Frances í götu í nágrenni okkar sem er (innskot, Mary Frances var að hringja og tilkynna mér að hún væri með "high school buddies" á píanóbar í Tacoma og ætlaði að biðja um Runaway Train sem óskalag) kölluð "Candy Cane Lane" á þessum árstíma. Þar eru öll húsin skreytt frá toppi til táar og skilti um allt sem á stendur "friður" á hinum ýmsu tungumálum, þ.á.m. hebresku, gallísku, armensku og azerbajdanisku. Myndavélin mín höndlar myrkrið ekki vel en hérna eru skástu myndirnar mínar.





Svo var snjóbretta afsveinun um daginn með Mike og Brandon í Stevens Pass. Nokkuð ljóst að maður fær ekki "Rookie of the year" verðlaun fyrir frammistöðuna en samt magnað að sjá bætingu hjá manni sjálfum yfir nokkurra klukkutíma tímabil.


Svo fékk ég e-mail í dag:

Congratulations Kolbeinn Tumi Dadason, your request to graduate with a MASTER OF SCIENCE IN CIVIL ENGINEERING has been reviewed by the Graduate School and is approved.

Gaman að staðfesting á að þetta gekk allt saman er komið í hús en hins vegar nokkuð ljóst að það vantar nokkur ár upp á MASTER OF SKILL IN SNOWBOARDING.

Að síðustu þá reddaði Atli heilum hellingi af jólalögum fyrir mig um daginn en mig vantar ennþá "Þú komst með jólin til mín". Væri ekki leiðinlegt ef einhver gæti reddað þeim slagara fyrir mig. E-mailið efst á síðunni er kjörið til slíks.

mánudagur, desember 18, 2006

Jæja, þá er maður kominn að ákveðnum tímamótum. Skólinn búinn og maður á leiðinni út á vinnumarkaðinn. Fékk einmitt vinnuleyfið mitt í dag þannig að þetta virðist allt ætla að ganga upp eins og maður vonaðist til. Strax búið að láta mann vita af "Holiday Party" þann 20. janúar þar sem þemað er 007. Maður þarf strax að fara að pæla í því hvernig maður klæðir sig upp fyrir þann fagnað.

Frá vinstri: Mike, Danya, Brandon, Claudio

Fór í tvö próf seinasta daginn og eftir það síðara fórum ég með nokkrum góðum félögum í hádegismat á Schultze's á Ave-inu og fögnuðum próflokunum.
Eftir matinn skellti ég mér svo í hlý föt og dreif mig að hitta Miguel félaga minn en nú átti loksins að sjá Seahawks leik en andstæðingarnir voru 49'ers. Það var spáð stormi þetta kvöld en þeir eru venjulega frekar dramatískir Bandaríkjamenn þegar kemur að veðrinu kippti ég mér lítið upp við það. Svo fór að leiknum var frestað um 15 mínútur vegna mestu rigningar sem ég hef nokkurn tímann lent í. Leikurinn var svo sem ekkert spes þar sem Seahawks voru hrikalega slappir og töpuðu fyrir 49'ers en þetta var allavegna the Total Experience. Við sátum í "The Hawksnest" sem er fyrir aftan annað "End Zone-ið" og heitustu stuðningsmennirnir eru. Því var ekki um annað að ræða en að öskra úr sér lungun til að falla inní hópinn.


Eftir leikinn mætti Atli með föt til skiptanna og Radford félaganna Grétar og Ingimar og var haldið á 88 keys píanóbarinn. Þar voru raddböndin þaninn þar til staðurinn var nánast tómur en ekki tengi ég það við sönghæfileika okkar. Mary Frances mætti seinna um kvöldið og alveg merkilegt hvað hún sættir sig við mikla vitleysu af minni hálfu. Grétar átti í mestu vandræðum með klappstýrurnar sem létu hann ekki í friði. Hápunkturinn var svo þegar "Runaway Train" með Soul Asylum var tekið enda þvílíkur slagari á ferðinni.


Á leiðinni heim af 88 keys sáum við svo ruslatunnur, laufblöð og greinar úti um allt á götunum en það var ekki fyrr en daginn eftir að við áttuðum okkur á því að stormviðvörunin var ekkert grín. Nokkur hverfi í kringum okkur voru rafmagnslaus í yfir 15 tíma og við misstum netið í 3 daga. Þrír létust og yfir milljón manns voru rafmagnslaus í fylkinu. Úti um allt voru risatré sem höfðu brotnað og alveg ótrúlegt að sjá þetta. Sérstaklega var skrýtið að keyra um kvöldið úr okkar hverfi þar sem allt var upplýst yfir í það næsta þar sem allt var svart.

Þetta tré varð á leið minni frá Mary Frances upp á Saxe

miðvikudagur, desember 06, 2006

Fann fyrir tilviljun skýrslu um útskriftarferðina okkar til Egyptalands og Kenýa á vafri mínu um veraldarvefinn í kvöld. Þar var þessi skemmtilega mynd í þeim kafla sem fjallaði um Níl. Ég held að ég sé samt ennþá að hita upp þarna.


Svo er gaman að segja frá því að ég er loksins að fara á minn fyrsta NFL leik á fimmtudaginn eftir viku þegar Seahawks taka á móti San Francisco 49'ers. Tókst að redda miðum á viðráðanlegu verði en það var uppselt á alla heimaleikina áður en tímabilið hófst. Fer með Miguel félaga mínum og eru sætin í "The Hawks Nest" þar sem hörðustu stuðningsmennirnir sitja og er ljóst að tólfti maðurinn á eftir að láta vel í sér heyra. Leikurinn er sama dag og ég klára prófin, fer einmitt í tvö próf í röð um morguninn og því ekki til betri leið að fagna próflokum og væntanlegri mastersgráðu. Ekki ólíklegt að það verði litið inná píanóbar að leik loknum.