Mikið panic greip um sig í Seattle á mánudagskvöldið þegar það fór að snjóa seinni partinn. Strætóar hættu að ganga, bílar komust ekki leiðar sinnar og ég labbaði heim úr skólanum. Þetta var mjög hefðbundin úrkoma og frost eins og er á Íslandi reglulega yfir 3 mánaða tímabil eða svo en hér var allt í lamasessi. Daginn eftir voru nánast allir skólarnir lokaðir og auðvitað var fyrsti tannlæknatíminn minn í 1.5 ár felldur niður vegna veðurs. Það er ennþá frekar kalt en fólk virðist vera að jafna sig á þessu og salt á vegum hjálpar til. Ófáir sem spyrja mann núna hvort manni líði eins og heima hjá sér og af hverju maður sé svona vel klæddur (eins og maður hlaupi um á stuttbuxum af því maður er frá Íslandi).
Annars er allt að verða klárt í mínum málum.
Ég er búinn að ráða mig í vinnu hjá verkfræðistofunni Coughlin Porter Lundeen sem er staðsett í hjarta Seattle borgar. Ég fór í 5 viðtöl og endaði á því að fá 4 tilboð sem segir meira um eftirspurn eftir fólki í burðarþoli en mig. Byrja í janúar og verð þar í 15 mánuði líklegast eða út mars 2008 (takk Hrabba).
Svo lítur allt út fyrir að ég flytji inn í íbúð í Queen Anne hverfinu sem er fallegt hverfi norðan við Space Needle. Myndin að ofan (klassísk mynd af Seattle) er einmitt tekin úr því hverfi, rétt hjá væntanlegu húsnæði. Það er einstaklingsíbúð á efstu hæð í 4 hæða húsi með útsýni yfir "The Puget Sound". Stutt í vinnuna hvort sem það er á hjóli, gangandi, strætó eða Monorail. Monorail hefur einmitt annað endastopp hjá Space Needle og hitt svo í næsta húsi við stofuna mína.
Svo stefnir í fyrstu jólin sem maður verður ekki heima með fjölskyldunni. Verður örugglega fínasta jólastemmning á Saxe enda Ásdís kærastan hans Atla væntanleg og er Atli strax farinn að pæla hvar eigi að kaupa jólatréð, hvari eigi að fá fót og svo hvernig seríu eigi að kaupa. Mikil pæling hjá mér að skrifa jólakort til e-a snillinga á Fróni og svo verður maður auðvitað að reyna að baka eitthvað. Mesta panic-ið snýr þó að jólalögunum sem maður heyrir svona 40 sinnum á dag á Íslandi og finnst alltof mikið en væri þó til í að geta spilað nokkrum sinnum. Það vita auðvitað allir hvaða slagarar eru hér á ferðinni.
Svo að lokum þá ætla ég að henda símanúmerinu mínu hingað á netið ef ske kynni að e-r vildi ná í mig: 1-206-661-3406