Nú styttist í að reykingar verða bannaðar á skemmtistöðum/veitingahúsum á Íslandi. Hef verið að lesa ýmsar umræður á hinum og þessum vefsíðum þar sem að vanda heyrist mest af mótmælum. Ég hélt nú að allt reyklaust fólk yrði jafn hamingjusamt og ég með þessa löggjöf en svo virðist ekki vera. Fólk talar um að verið sé að taka frelsi af veitingaaðilunum, af hverju rekstraraðilarnir geri ekki staðina reyklausa sjálfir ef fólkið vill það, setja eigi upp skilti í anddyri staðanna sem segi fólki að koma inn á eigin ábyrgð, af hverju á ekki að banna áfengi o.s.frv.
Ég hef alltaf verið viðkvæmur fyrir reykingum, fæ hausverk af reyknum. Svo sú staðreynd að fötin voru angandi af reyk daginn eftir auk þess sem timburmennirnir voru mun verri. Búinn að vera hérna í Seattle í bráðum tvö ár og fullyrði að ég verð ekki jafnþunnur hér og heima á Íslandi. Auk þess gerði ég eitt sinn þau mistök að kyssa stelpu en hætti snarlega við þegar ég fann að hún hafði verið að reykja. Þar með var það ævintýri úti.
Eftir nokkur ár á fólk eftir að líta tilbaka og undrast að það hafi nokkurn tímann verið leyft að reykja inná veitingastöðum. Það er ekki svo langt síðan það mátti reykja í flugvélum og bíóum en núna finnst fólki það algjörlega fáránlegt.