miðvikudagur, desember 14, 2005

Kominn á klakann og væntanlega 3 vikna pása framundan hérna nema það komi á daginn að ég hafi EKKERT að gera. Spurning um að kíkja á Imut og hjálpa honum í próflestrinum.
L

miðvikudagur, desember 07, 2005

ABBA aðdáandinn skellti sér á söngleikinn Mamma Mia í Paramount í gærkvöldi. Miklar væntingar að sjálfsögðu í takti við alla þá svaðalegu slagara sem Benny og Björn sömdu á sínum tíma. Ekki er hægt að segja að undirritaður hafi orðið fyrir vonbirgðum eins og svo oft vill verða er væntingar eru miklar. Söngleikurinn var mjög fyndinn, öll helstu lögin spiluð í honum (nema Fernando) og svo endaði þetta á svakalegum nótum þar sem allir stóðu upp og sungu og dönsuðu. Ekki slæmt þriðjudagskvöld í rigningarborginni.




Kláraði mitt síðasta verkefni í morgun þ.a. á morgun er stefnan sett á bæjarferð að gera vonandi mögnuð jólagjafainnkaup. Miðbærinn skartar væntanlega sýnu fegursta og alveg basic að ná einum degi til að upplifa jólastemmarann. Reyndar verð ég víst einn á ferð enda flestir aðrir í prófum eða í skólanum og svo sem ekkert endalaus listi af fólki sem væri hægt að draga með sér í bæinn. Lykilatriði að búa sig þokkalega enda kuldi í borg, í kringum 5°C.

Vonbrigði í dag þegar Utd datt út úr meistaradeildinni. Hlýtur að vera gaman að vera Poolari. Þoli samt ekki fólk sem þrífst frekar á ógæfu annarra liða en árangurs eigin liðs. Utd voru ekkert spes í dag en þeir hefðu svo sem alveg getað skriðið áfram með smá heppni. Þessi riðill var bara ekkert spes þ.a. þetta hefði ekki átt að vera neitt mál. Ryan Giggs var aumingi dagsins. Hann hundskammaði John O'Shea og Ruud Van Nistelrooy í leiknum, gat ekki rassgat og þegar honum var skipt út af þá rölti hann í rólegheitunum útaf þó hver sekúnda skipti miklu máli. Ekki lét hann þar við sitja heldur hélt áfram vælinu á bekknum. Vona að Park fari að byrja leikina. Hef tröllatrú á honum.

Fór á minn fyrsta NBA leik um daginn í Key Arena. Lebron James og félagar í Cavaliers voru í heimsókn. James er eitt aðalnúmerið í deildinni núna og sýndi svakatilþrif á köflum. Þetta var magnaður leikur. Höllin var þétt setin jafnvel þó tímabilið sé í raun tiltölulega nýbyrjað. Sonics voru með forystuna lengi vel en svo jöfnuðu Cavaliers í lok 3. leikhluta. Í þeim fjórða sigu heimamenn svo frammúr og unnu með 5 stigum. Sátum hjá e-um blindfullum kalli sem vildi endilega taka mynd af okkur með völlinn í baksýn.