þriðjudagur, maí 27, 2003

Alþingi Íslendinga
Er að gera dúndurgóða hluti núna. Búið að starfa í 2 daga og allt komið í háaloft strax. Þingmennirnir komnir í hár saman út af kjörinu og enginn skilur neitt í neinu því alþingismennirnir eiga að ákveða það sjálfir hvort þeir eru réttkjörnir. Það skemmtilega í málinu er svo að það er félagsmálaráðuneytið sem fer með framkvæmd kosninga og nýráðinn félagsmálaráðherra er jafnframt sá þingmaður sem síðastur "datt inn" á þing og aðeins munaði 13 atkvæðum að hann kæmist ekki inn. Ég efast um að fyrsta mál á dagskrá hjá honum þegar hann mætir í vinnuna verði að setja sjálfan sig úr embætti með því að skófla sér af þingi.
Mörður Árnason
Hlýtur að vera einn sá alskemmtilegasti þingmaður sem Ísland hefur yfir sig kosið og ég hlakka til að hafa hann á þingi næstu fjögur árin. Hann er maðurinn sem sér um litlu málefnin sem engu skipta og enginn nennir þar af leiðandi að kipta sér af. Sem dæmi um það má nefna að í störfum sínum í Útvarpsráði hefur hann komið með margar skemmtilegar hugmyndir, hann ákvað t.d. að fara í krossför gegn því að Eurovisionlagið okkar yrði sungið á ensku. Ekki man ég svo til að hann hafi krafist þess að Rúv sýndi HM í fótbolta, hann hefur sennilega talið sínu hlutverki fyrir útvarpsráð lokið og haldið áfram að skrifa orðabókina sína.
Mörðurinn kom svo sterkur inn á þingið í dag. Meðan allir þingmennirnir hnakkrifust um alþingiskosningarnar, og meðför ráðamanna á þessum alheilagasta og allýðræðislegasta rétti sem þjóðin hefur, var Mörður ekki sáttur. Hann vildi láta draga í sætabingóinu, því hann var drulluósáttur við að sitja við hliðina á Sólveigu Pétursdóttir, en eins og allir vita er hún í fýlu eftir að hafa ekki fengið að halda ráðuneytinu sínu. Hún hlýtur að hafa verið afar leiðinlegur sessunautur, því Mörður gafst upp á henni eftir einn dag, og krafðist þess að eins og öllum sönnum lýðræðisríkjum yrði dregið í sætin uppá nýtt. Ég vona að hann hafi fengið einhvern skemmtilegan að sitja við hliðina á, best er ef Mörður hefur lent á milli Sigurðar Kára og Guðlaugs Þórs. Þá fyrst verður stillt á alþingisrásina öll kvöld.