fimmtudagur, nóvember 03, 2005

Lífið gengur sinn vanagang í Seattle þar sem er lært á milli þess sem skemmtunin ræður ríkjum. Sú mikla hátíð Kanans Halloween var haldin hátíðleg um síðustu helgi. Við Geiri og Atli fórum í laugardagsbíltúr þar sem skoðaðir voru grímubúningar. Enduðu leikar svo að Atli spilaði út veikindaspilinu sínu enn eina ferðina, Geiri ákvað að hann hefði efnivið heima á Nordheim til að vinna úr en Kolby keypti sér svakalega glyshárkollu ásamt tilheyrandi skyrtu. Ekki var ljóst hvað sá búningur ætti að vera en e-s konar 80's rokkari ætti að duga sem útskýring á dressinu. Við Geiri og Óli hentum okkur svo í partýið þar sem heimagerður búningur Geirans sló í gegn.


Á sunnudaginn var svo sofið einni klukkustund lengur þar sem breytt var yfir í vetrartíma en svo var leikur Sporting FC gegn e-u liði. Skemmst að segja frá því að leikar töpuðust 1-0 en sáust þokkalegir taktar inná milli og í fyrsta skipti í langan tíma komst ég ágætlega frá mínum leik og var markið m.a. skorað á þeim 5 mínútum sem ég var utan vallar. Allavegna eru strákarnir í liðinu farnir að líta á þetta tímabil sem upphitun fyrir það næsta sem hefst eftir jól og allt gott um það að segja. Annar leikur næsta sunnudagsmorgun þ.a. ljóst að maður missir af enn einni messunni. Maður bætir það upp um jólin eins og venjulega.

Rolling Stones tónleikarnir fóru svo fram með promt og prakt á sunnudagskvöld. Mæting var stundvíslega kl 19:30 enda Tommy Lee og félagar í Motley Crue að hita upp. Þeir voru helvíti sprækir og söngvarinn setti örugglega heimsmet í notkun orðsins "fuck" í hinum ýmsu myndum þennan hálftíma sem þeir trylltu lýðinn. Svo komu meistarnir á svið. Tóku þeir hvern slagarann á fætur öðrum og laumuðu inn einu og einu úr nýja efninu sínu. Ótrúlegt hvað þeir voru sprækir miðað við aldur. Levy hafði m.a.s. á orði að Jaggerinn minnti hann á mig í hreyfingum sínum en óvíst hvort það segi meira um meistara Mick eða mig. Auðvitað voru ýmis lög sem maður hefði viljað heyra en uppáhaldslagið, Angie, því miður ekki að hljóma í þetta skiptið. Önnur lög á borð við Jumpin Jack Flash, Let's spend the night together, satisfaction, brown sugar, satisfaction, honky tonk women, start me up og you can't always get what you want voru þó á sínum stað ásamt fleirum.



Að tónleikunum loknum var haldið í bílinn og DJ Kolby henti að sjálfsögðu Angie beint á fóninn og rúður skrúfaðar niður og sungið af tilfinningu. Ekki vissi undirritaður fyrr en hann var farinn að syngja dúett við e-a stelpu á gangi fyrir utan höllina og var tilfinningin ekki minni hjá henni þar sem farið var á hnén og tár þerruð. Endaði það á að hún og vinkona hennar komu að spjalla við okkur og endaði það með því að við keyrðum um miðbæinn í leit að bar sem fannst á endanum. Fengum okkur nokkra drykki og skemmtum okkur ágætlega með þessum stelpum sem reyndust flugmenn frá Kanada, takk fyrir túkall. Myndir frá þessu fína kvöld má ásamt öðrum finna á myndasíðunni hennar Hrafnhildar




Að lokum þá eru bara sumar myndir sem koma manni í gott skap!