sunnudagur, janúar 08, 2006

Mættur til Seattle og er maður aðeins farinn að átta sig á þessu rigningarorðspori sem hefur viljað loða við borgina. Búið að rigna annan hvern dag og það hressilega en hinn daginn hefur verið fínasta veður. Svo vel hefur hitt á að dagana sem ég var að þvælast upp í skóla, jú maður er víst í skóla hérna, var virkilega fínt veður. Var að íhuga að fara að fjárfesta í regnhlíf en Levy sá heldur betur um það þegar hann fjárfesti í fjölskylduregnhlíf enda hefur fjölgað um heil 50% í íbúð 208 á Saxe. Frúin hans Atla hún Ásdís hefur nefnilega ferðast heimsálfa á milli til að taka þátt í ævintýrinu mikla í Seattle. Í stuttu spjalli við síðuna sagðist hún hafa miklar væntingar til verunnar og væri frönskukunnátta, aukin undirstaða í fræðum stjórnmálanna, eldamennska, gítarnám og magadans meðal þess sem ætti að tækla á komandi mánuðum auk Atla sem strax er farinn að verkja í öklann af óútskýranlegum ástæðum.


Ekki stórar fréttir svo sem annars héðan. Kíktum með Íslendingum í "Dim Sum", kínverskan morgunverð í morgun þar sem alls kyns matur var á borðstólum sem ég kann litlar skýringar á en borðaði með bestu lyst. Svo er kominn nýr snillingur á bensínstöðina þar sem egg, bacon og bjór er keypt í töluverðum mæli. Sá ágæti náungi heitir Andrew og leysir af hólmi Mike sem er genginn til liðs við "The Police Academy". Ekki er sjöunda myndin á dagskrá heldur er ótrúlegt en satt til slík akademía hér og þjálfar löggur í fleiru en að geta framkvæmt hin ótrúlegustu hljóð með munninum.

Fyrsti leikur Sporting FC á nýju tímabili er í fyrramálið kl 09. Vona svo sannarlega að það verði ekki rigning. Er skrýtinn í hásininni, með þvílíkar harðsperrur eftir fimmtudagsæfinguna og með væna hálsbólgu þ.a. ég reikna ekki með því að setja mörg á morgun en ætli maður leggi ekki allavegna upp eitt af þeim þremur sem Levy skorar í fyrri hálfleik. Svo er stefnt á að losa sig við þennan hálsbólgu/hita viðbjóð, líta í bækur milli þess sem lífsins er notið.

Lifið heil.

Geira var boðið í vídeókvöld og í þetta skiptið mætti hann undirbúinn og hefur að sögn aldrei sofið jafn vel í "lata stráknum" og í kvöld.