mánudagur, janúar 02, 2006

Þá er þriggja vikna letilífi á Íslandi lokið og þar með bloggpásunni. Það er víst úr sögunni að maður verði bloggari ársins hjá Miðjunni 2. árið í röð og því vissara að fara að þrífa á sér bakið og standa sig betur á nýju ári. Fríið fór að mestu leyti í djamm, jólaboð, spilakvöld og sjónvarpsáhorf. Hitti nánast alla þar á meðal meistara Tarantino þar sem ég var á röltinu í skotapilsi við brennu nokkra við Ægisíðuna. Best þótti mér að hann virkaði næstum jafn þunnur og ég sem var ákveðinn léttir.

Áramótaheitið er eitt: Lesa a.m.k. fimm bækur mér til skemmtunar og yndisauka. Háleitt markmið þar sem ég held að ég hafi ekki lesið neina í slíkum tilgangi á liðnu ári.

Allavegna, hér er brot af því besta sem hafa verið sérstaklega skemmtilegar þrjár vikur. Vona að nýtt ár verði jafnskemmtilegt og það liðna.



Mætti uppí skóla og hrellti liðið aðeins. Eyðilagði síðan það litla sem eftir var af mannorðinu þegar ég settist við lestur í nokkra tíma, kominn í jólafrí. Breiðfjörð skyldi a.m.k. hvorki upp né niður þegar ljósmyndara síðunnar bar að garði.

Fór í fyrsta skiptið í íþróttahús Selfyssinga og sá stórlið Stjörnunnar sigra Selfoss. Væri ekki frásögum nema Stjörnuliðinu fylgdi stuðningslið úr Garðabænum sem mynduðu mesta hávaða sem ég hef á ævinni heyrt á handboltaleik og hef ég þó sótt margan leikinn. Nielsen fór fyrir celebunum úr Sjálfstæðishreiðrinu og setti 8 stykki.

Próflokadjamm og partý hjá Kötu. Aðalmaðurinn lét sig að sjálfsögðu ekki vanta og heldur ekki Gamli sem mætti með nýja nefið. Langþráð djamm hjá verkfræðinemum en þriðja eða fjórða þá vikuna hjá undirrituðum sem var að komast í gott form.


Þorláksmessa með friðargöngu, bæjarferð, piparkökubakstri, Bubba og dans í kringum jólatréð. Jólasveinninn "Zoo-Atli" lét sig ekki vanta og gaf góðfúslegt leyfi fyrir myndbirtingu á síðunni.


Árið 2006 gekk í garð og var því fagnað með vinafólki. Kom í ljós sú merkilega staðreynd að í annarri fjölskyldunni voru allir klæddir pilsi meðan meðlimir hinnar klæddust buxum. Þótti þetta hið mesta skemmtiefni og bætti upp fyrir eitt sorglegasta skaup allra tíma þar sem undirritaður steinstofnaði undir lokin.


Nýársdansleikur á Hressó þriðja árið í röð þar sem Miðjan kynnti kvenþjóðina fyrir mökunardansinum margfræga. Ekki að spyrja að því að kvenfólkið stóð á öndinni.