fimmtudagur, janúar 12, 2006

26 rigningadagurinn í röð í Seattle. Það styttist í að met verði slegið og væri ekki amalegt að geta sagst hafa verið í rigningarborginni þegar það gerðist. Þýðir samt að ég er farinn að safna fyrir regnhlíf því við nánari athugun kom í ljós að fjölskylduregnhlífin hans Atla getur ekki verið á tveimur stöðum í einu. Engu að síður töluvert skárra þegar rigningin er lóðrétt en ekki í allar áttir eins og heima. "And sometimes rain even seemed to come straight up from underneath."
Hver ætli sé fyrstur að átta sig á þessu quote-i?


Er allavegna búinn að losa mig við þetta kvef sem var að hrjá mig enda ekki seinna vænna. Allt farið á fullt í skólanum og við Geiri og Kári erum búnir að skrá okkur í "The Big Beam Competition" þar sem markmiðið er að hanna besta forsteypta bitann. Þetta verður þokkaleg auka vinna en í hópi með þessum snillingum og tveimur öðrum verður þetta staðfest skemmtilegt og lærdómsríkt.

Ótrúlegt hvað Tyrkir hafa stuttan kveikiþráð (kannski gríðarleg fullyrðing en maður hefur tekið eftir þessu í fótboltasamfélaginu a.m.k.). Félagi okkar Atla í fótboltaliðinu er Tyrkneskur Þjóðverji og fínasti gaur. Honum tekst hins vegar nánast í hverjum einasta leik að lenda í leiðindum við e-a gaura. Svo á æfingunni í kvöld tæklaði ég einn strák aðeins sem að brást hinn versti við og fór e-ð að hrauna yfir mig. Ég var nú alveg slakur en félagi minn hélt nú ekki og bombaði boltanum í hann. Þegar ég talaði við hann eftir æfinguna sagði hann einfaldlega: "I'm not looking for trouble or anything like that but when somebody does something to my friend....". Ótrúlegt stolt í þessum félaga.

Spiluðum fyrsta leikinn okkar í deildinni á sunnudaginn og vorum 2-0 undir í hálfleik. Frekar dapurt, tvö klaufaleg mörk og frekar þungt yfir okkur. Þegar ég komst að því að við værum að spila manni fleiri var mér nú öllum lokið og það sama gilti um fleiri því eftir 10 mín í seinni hálfleik vorum við búnir að jafna og unnum svo 4-2 í restina. Íslensk samvinna gulltryggði sigurinn í lokamarkinu.

Stórleikur á laugardaginn í NFL. Þá mætast Seattle Seahawks og Washington Redskins. Löngu uppselt og gaurar að selja miða á 500-1000$ á netinu. Þetta er víst í fyrsta skipti í 20 ár sem "VIÐ" komumst í úrslitakeppnina og sumir segja að við séum líklegir til að fara alla leið í Superbowl. Þá fyrst geta netgaurarnir farið að leggja e-ð á miðana sína.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

<< Heim