miðvikudagur, nóvember 10, 2004

Já, ef það var einhvern tímann nokkur vafi þá er ég sjálfur búinn að taka af nokkurn vafa; ég er nörd. Mér finnst ég ekki gera annað en að læra þessa dagana. Skýrslur hingað og þangað og sér ekkert fyrir endann á þessu. Man ekki hvenær ég tók síðast spólu, hvað þá hvenær ég fór síðast í bíó. Á ennþá tvöfaldan boðsmiða í bíó sem ég þarf að nota fyrir mánaðarmót. Spurning hvort að maður rífi sig upp af rassgatinu fljótlega og drífi sig í bíó.
En nördin þurfa líka að hreyfa sig og það gerði ég svo sannarlega í ræktinni um daginn. Fór einn af því að ég komst ekki fyrr um daginn með Aðalmanninum og Kennaranum. Byrjaði sem aldrei fyrr á hlaupabrettinu og tók með mér discman-inn til að stytta mér stundirnar á brettinu. Þegar ég var búinn að skokka í svona 10 mínútur á þokkalegum hraða slokknaði á discmanninum. Sem ég athugaði hvað var í gangi og grannskoðaði spilarann í bak og fyrir steingleymdi ég stund og stað. Steig ég fram á brún brettisins og missti jafnvægi, byrjaði að stappa og reyna að redda mér með tilheyrandi látum. Þetta slapp fyrir horn þannig að ég fór aftur að athuga hvað væri í gangi með spilarann. En nei nei, þá endurtekur þetta sig þannig að ég fipast allur til nema í þetta skiptið næ ég ekkert jafnvæginu heldur enda á því að kastast á gólfið með tilheyrandi látum, eftir að hafa reynt að redda mér á háværan hátt í svona 10 sek. Auðvitað störðu allir í salnum á mig þar sem ég stóð á gólfinu. Ég gerði það eina í stöðunni, þakkaði fyrir mig og hélt áfram að hlaupa.
Annars er gaman frá því að segja að ég var boðaður í Fulbright viðtal um daginn vegna þess að ég sótti um námsstyrk til þeirra. Viðtalið fór fram á ensku og gekk svona þokkalega. Svars er að vænta í næstu viku en ég er ekkert uber bjartsýnn.